Kominn tími á breytingar

Finnur Freyr Stefánsson er hættur sem þjálfari KR.
Finnur Freyr Stefánsson er hættur sem þjálfari KR. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég tel bara að þetta sé komið gott hjá mér. Þetta er búinn að vera frábær tími og mikil velgengni en ég met það svo að nú sé þörf á breytingum,“ sagði Finnur Freyr Stefánsson í samtali við mbl.is en hann hefur ákveðið að láta af störfum sem þjálfari Íslandsmeistara KR í körfuknattleik.

Finnur Freyr hefur verið við stjórnvölinn hjá KR-ingum undanfarin fimm ár og hefur liðið hampað Íslandsmeistaratitlinum öll árin og unnið bikarkeppnina tvisvar sinnum. Árangur hans með Vesturbæjarliðið hefur verið hreint út sagt magnaður en KR hafði betur á móti Tindastóli í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn í vor.

„Ég tel að nú vanti inn ferskt blóð. Fimm ár er langur tími en þetta hafa verið frábær ár og ég geng mjög sáttur frá borði,“ sagði Finnur Freyr.

Þreifingar í gangi

Finnur segir að ekki liggi ljóst fyrir á þessari stundu hvað taki við hjá honum í þjálfun en hann er ekkert á þeim buxunum að hætta og stefnir á að halda áfram.

„Það er allt í lausu lofti enn þá hjá mér. Ég vildi ekkert vera að bíða með að tilkynna KR-ingum þetta. Ég tók mér maímánuð til að hugsa hlutina. Ég vildi drífa þetta af svo KR geti haldið áfram sinni vinnu. Ég er ekki kominn í viðræður við önnur félög en það eru þreifingar og ég hef fengið fyrirspurnir,“ sagði Finnur Freyr en orðrómur hefur verið í gangi um að hann sé hugsanlega á leið til Svíþjóðar.

„Ég ætla að halda áfram að þjálfa og tel að það sé gott að breyta til á þessum tímapunkti og fá nýjar áskoranir. Ég og frúin ákváðum að taka sumarið í að velta fyrir okkur næstu skrefum,“ sagði Finnur Freyr.

Finnur segist ekki hafa hugmynd um það hver verður hans eftirmaður. „Ég held að ég hafi komið KR-ingum á óvart í gær þegar ég tilkynnti þeim þetta. Ég treysti því að KR finni sér einhvern toppmann í starfið sem heldur fjörinu áfram í Vesturbænum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert