Reyndi á sjálfstraustið en vill aftur í atvinnumennsku

Elvar Már Friðriksson
Elvar Már Friðriksson mbl.is/Skúli B. Sigurðsson

 „Þetta er búið að vera mjög fínt og það er gott að vera kominn heim,“ sagði Elvar Már Friðriksson í samtali við Morgunblaðið.

Elvar er besti leikmaður desembermánaðar í Dominos-deild karla í körfubolta að mati Morgunblaðsins. Njarðvík er búið að vinna alla fimm leiki sína síðan Elvar kom til félagsins um miðjan nóvember og alls sjö leiki í röð, en þrátt fyrir það vill Elvar sjá enn meira frá liðinu.

„Hlutverkaskiptin í liðinu riðluðust smá eftir að ég kom inn og við eigum enn þá svolítið í land. Við erum að fínpússa leikinn okkar og það er stígandi í þessu hjá okkur. Við viljum vera sem bestir í úrslitakeppninni. Þegar við náum áhlaupum í leikjum viljum við halda betur út. Við erum oft búnir að ná forskoti en svo missum við það strax aftur niður. Við viljum læra að stíga aðeins betur á bensíngjöfina og klára leikina. Nokkrir leikir eru búnir að vera jafnir, sem mér finnst við hafa átt að klára fyrr,“ sagði Elvar.

Gekk ekki nægilega vel úti

Leikstjórnandinn byrjaði tímabilið hjá Denain-Voltaire í frönsku B-deildinni. Hann gekk í raðir félagsins í sumar ásamt Kristófer Acox, liðsfélaga sínum hjá íslenska landsliðinu. Samningi hans var hins vegar sagt upp í kjölfar þess að Kristófer óskaði eftir því leita á önnur mið vegna skipulagsbreytinga. „Það reyndi á sjálfstraustið að vera úti því það gekk ekki nægilega vel. Sumir leikir voru góðir en það var meira skortur á tækifærum sem var ekki gott. Ég var nýliði í atvinnumennsku og þá fær maður stundum ekki stórt hlutverk. Lítið hlutverk hentaði mér ekki vel. Ég ætlaði að koma hægt og rólega inn í þetta hjá Njarðvík og vinna upp sjálfstraustið mitt aftur. Það gekk hraðar en ég bjóst við. Það hjálpaði að koma inn í umhverfi sem ég þekki og það hefur gengið vel að hjálpa Njarðvík að vinna leiki,“ sagði Elvar og viðurkenndi að hann hefði ekki ætlað að koma heim á þessum tímapunkti, enda nýbyrjaður í atvinnumennsku.

„Það var aldrei planið að koma heim en ég geri eins gott úr þessu og hægt er. Ég læri á þessu því þetta var lærdómsríkur tími, þótt þetta hafi bara verið nokkrir mánuðir. Þetta fer í reynslubankann. Núna veit ég hvernig atvinnumennskan gengur fyrir sig og ég einbeiti mér að því jákvæða við þennan tíma.“

Nánar er rætt við Elvar í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag. Þar er einnig að finna hvernig lið mánaðarins er skipað. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert