Hnífjafnt hjá Denver og San Antonio

Nikola Jokic sækir að körfu San Antonio.
Nikola Jokic sækir að körfu San Antonio. AFP

Denver Nuggets vann 117:103-útisigur á San Antonio Spurs í fyrstu umferð úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfuknattleik í nótt og er því einvígi liðanna áfram hnífjafnt, en bæði lið hafa nú unnið tvo leiki.

Nikola Jokic var bestur í liði gestanna, skoraði 29 stig, tók 12 fráköst og gaf átta stoðsendingar eru Denver jafnaði einvígið en Jamal Murray gerði 24 stig. Hjá heimamönnum í San Antonio var LaMarcus Aldridge með 24 stig og níu fráköst.

Liðin mætast aftur í Denver á aðfaranótt miðvikudags þar sem heimamenn geta komið sér í vænlega stöðu en vinna þarf fjóra leiki til að komast áfram.

Þá eru Milwaukee Bucks og Houston Rockets komin í væna stöðu í úrslitakeppninni en bæði lið eru með 3:0 forystu í einvígum sínum eftir nóttina.

Milwaukee vann 119:103-sigur á Detroit Pistons og Houston hafði betur gegn Utah Jazz, 104:101. James Harden var með 22 stig og 10 stoðsendingar fyrir Houston.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert