„Ást alls staðar frá“

Matthías með boltann við endalínuna í kvöld.
Matthías með boltann við endalínuna í kvöld. mbl.is/Hari

Matthías Orri Sigurðarson, leikmaður ÍR og uppalinn KR-ingur, segist finna fyrir ást úr öllum áttum í úrslitarimmunni um Íslandsmeistaratitil karla í körfuknattleik. 

Matthías skoraði 18 stig fyrir ÍR í síðari hálfleik og framlengingu þegar liðið sigraði KR í kvöld 89:86 og tók forystuna í úrslitarimmunni. ÍR er 2:1 yfir en vinna þarf þrjá leiki til að verða meistari. 

Stuðningsmenn KR sungu um tíma í leiknum: „Eina sem við viljum er Matthías heim.“ Hvað fór í gegnum hugann þegar hann heyrði það? 

„Maður finnur ást alls staðar frá og það er bara gott. Mér líður vel hérna í Vesturbænum og líður einnig vel í Breiðholtinu. Þetta er besta sería sem ég hefði getað ímyndað mér og er auðvitað þakklátur fyrir það. Ég hef bara gaman að þessu og er einnig þakklátur stuðningsmönnum ÍR. Það er svo mikil jákvæðni í gangi og maður endurnærist. Þetta er ógeðslega gaman en að sama skapi þá byrjar núna alveg rosaleg andleg vinna hjá okkur ÍR-ingum. Hvernig ætlum við að tækla það að vera aftur komnir yfir og á leiðinni á heimavöll okkar? Við þurfum að finna jafnvægi á milli þess að vera orkumiklir, skynsamir og með sjálfstraustið í lagi. Ef það tekst þá held ég að við tökum þá en geri mér grein fyrir því að það verður rosalega erfitt að vinna þetta frábæra KR-lið,“ sagði Matthías þegar mbl.is spjallaði við hann þegar úrslitin lágu fyrir. 

Spurður um hvort ÍR-ingar hafi stolið sigrinum í kvöld þá neitaði Matthías því ekki en KR hafði níu stiga forskot þegar rúmar tvær mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma.

„Já er það ekki nokkuð ljóst. Aðallega varðandi það að ná þessu í framlengingu. En svo leið okkur ofboðslega vel í framlengingunni. Ég er rosalega ánægður með að við skyldum aldrei gefast upp. Til dæmis þegar báðir stóru mennirnir okkar voru farnir út af með 5 villur í framlengingunni.“

Matthías Orri á ferðinni í kvöld.
Matthías Orri á ferðinni í kvöld. mbl.is/Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert