LeBron James gegn Miami

Tyler Herro og LeBron James eigast við í úrslitaeinvígi NBA-deildarinnar …
Tyler Herro og LeBron James eigast við í úrslitaeinvígi NBA-deildarinnar í Bandaríkjunum í nótt. AFP

Loksins, eftir þriggja mánaða stöðvun vegna kórónuveirunnar og sex vikna úrslitakeppni í kúlunni svokölluðu í Flórída, erum við komin í lokaúrslitin. Los Angeles Lakers var annað af tveimur sigurstranglegustu liðunum þegar keppnin hófst, en fáir áttu von á að Miami Heat myndi vinna úrslitakeppnina í Austurdeildinni. Einvígið hófst í nótt og búast má við fjörugri viðureign liðanna.

Við fyrstu sýn virðist Lakers-liðið sigurstranglegra, rétt eins og gegn Denver Nuggets í úrslitarimmu Vesturdeildar. Reyndar eru Denver og Miami svipuð lið að mörgu leyti, þannig að það er ekki eins og að Lakers sé að vaða út í óvissuna.

LeBron James á nú gott tækifæri til að vinna fjórða meistaratitilinn og bæta enn við orðstír sinn sem einn af bestu leikmönnum sögunnar.

Varnarleikur lykill Miami

Miami er komið í úrslitin í fyrsta sinn síðan 2014 eftir að hafa slegið út þrjú lið með betri deildarárangur í þessari úrslitakeppni. Heat er lið sem byggir á liðsmenningunni sem Pat Riley, fyrrverandi þjálfari Lakers og forseti Miami nú, leggur áherslu á, þar sem sterk liðsheild er í fyrirrúmi frekar en að byggja á stjörnuleikmönnum.

Það er fyrst og fremst góður varnarleikur Heat sem hefur komið liðinu í úrslitin. Liðið skiptir um varnaraðferð mörgum sinnum í leik og þjálfarar eru ekki hræddir að nota svæðisvörn til að rústa sókn andstæðingsins. „Maður verður að bera virðingu fyrir því hvað þeir hafa gert í þessari úrslitakeppni. Þeir eru rosalega seigir og líkamlegir í varnarleiknum og með gott körfuboltavit. Þeir eiga einfaldlega skilið að vinna Austurdeildina, eins vel og þeir hafa leikið,“ sagði Brad Stevens, þjálfari Boston, á sunnudagskvöld eftir að lið hans var slegið út af Heat í úrslitarimmu Austurdeildar.

Þjálfari Lakers, Frank Vogel, virtist hinsvegar ekki hræddur við varnarleik Miami fyrr í vikunni. „Við erum tilbúnir að skora gegn hvaða vörn sem þeir setja upp. Við þekkjum vel það sem þeir setja upp og erum tilbúnir að eiga við mismunandi varnarskipulag. Á þessum tímapunkti gengur þetta bara út á að treysta strákunum í að vera á réttum stöðum og gera atlögu að körfunni eins og sókn okkar leggur til.“

Þrátt fyrir orð Stevens að ofan, verður Miami enn á ný talið ólíklegt til að vinna þessa úrslitarimmu ef marka má veðbanka hér vestanhafs.

Greinina má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert