Glover farinn heim – „Þótti óþægilegt að spila með öðrum“

Shawn Derrick Glover spilar ekki meira með Tindastóli á tímabilinu.
Shawn Derrick Glover spilar ekki meira með Tindastóli á tímabilinu. Eggert Jóhannesson

Shawn Derrick Glover, sem hefur leikið með körfuknattleiksliði Tindastóls á tímabilinu, hefur spilað sinn síðasta leik fyrir Tindastól og er farinn heim til Bandaríkjanna.

„Við erum komnir með nýjan mann og Glover fann hvað var í gangi. Hann er náttúrlega bara kominn heim til sín,“ sagði Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Tindastóls, í samtali við Vísi fyrir leik liðsins gegn Njarðvík í gærkvöldi, sem Glover tók ekki þátt í.

Sögusagnir höfðu verið um að Glover hefði neitað að spila leik Tindastóls gegn KR í umferðinni á undan, þar sem hann kom ekki heldur við sögu. Eftir sigurinn gegn Njarðvík í gærkvöldi var Baldur Þór spurður nánar út í málið en vildi ekkert staðfesta í tengslum við hvort Glover hefði neitað að spila leikinn gegn KR. Hann sagði þó:

„Honum þótti óþægilegt að spila með öðrum leikmönnum. Við fórum yfir þetta en í sjálfu sér erum við bara komnir með annan flottan mann inn í þetta. Við vorum aldrei að fara í tveggja Kana dæmi. Glover klúðrar þessu sjálfur með því að vera sjálfselskur.“

Nýr Bandaríkjamaður, Flenard Whitfield, er genginn til liðs við Tindastól og sagðist Baldur Þór afar sáttur með það. „Þetta er allt annað líf, allt annað „kemestrí“. Þetta er gaman.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert