Skoraði 40 stig gegn meisturunum

Jaylen Brown, til hægri, átti stórleik fyrir Boston í nótt.
Jaylen Brown, til hægri, átti stórleik fyrir Boston í nótt. AFP

Jaylen Brown átti stórleik fyrir Boston Celtics þegar liðið heimsótti meistara Los Angeles Lakers í bandarísku NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt.

Brown gerði sér lítið fyrir og skoraði 40 stig, ásamt því að taka níu fráköst og gefa þrjár stoðsendingar en leiknum lauk með 121:113-sigri Boston.

Boston náði yfirhöndinni strax í fyrsta leikhluta og leiddi með 13 stigum í hálfleik, 61:48. Lakers tókst að minnka muninn í síðari hálfleik en Boston-menn voru sterkari á lokasprettinum.

Talen Horton-Tucker var stigahæstur Lakers með 19 stig en þeir LeBron James og Anthony Davis eru báðir frá vegna meiðsla.

Boston er í fjórða sæti Austurdeildarinnar með 30 sigra en Lakers er í fimmta sæti Vesturdeildarinnar með 34 sigra.

Úrslit næturinnar í NBA:

Cleveland Cavaliers 101:119 Golden State Warriors
Los Angeles Lakers 113:121 Boston Celtics
Phoenix Suns 122:114 Sacramento Kings

mbl.is