Knicks á leið í úrslitakeppnina

Nerlens Noel og Derrick Rose hafi verið frábærir fyrir New …
Nerlens Noel og Derrick Rose hafi verið frábærir fyrir New York Knicks í undanförnum leikjum. AFP

Fátt virðist geta komið í veg fyrir að New York Knicks leiki í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfuknattleik í fyrsta sinn síðan árið 2013 en liðið vann sex stiga sigur gegn LA Clippers í Los Angeles í kvöld.

Leiknum lauk með 106:100-sigri New York en Derrick Rose fór mikinn fyrir New York, skoraði 25 stig, tók sex fráköst og gaf átta stoðsendingar.

Mikið jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en New York var tveimur stigum yfir í hálfleik, 56:54. New York vann þriðja leikhluta með þriggja stiga mun, 23:20, og LA Clippers tókst ekki að koma til baka í fjórða leikhluta.

Kawhi Leonard var besti maður Clippers í kvöld, skoraði 29 stig og tók fjögur fráköst en það dugði ekki til.

New York er í fjórða sæti austurdeildarinnar með 38 sigra en LA Clippers er í þriðja sæti vesturdeildarinnar og öruggt með sæti í úrslitakeppninni þegar fjórar umferðir eru eftir af deildarkeppninni.

mbl.is