Harden sneri aftur í sigri - Línur að skýrast

James Harden kom sterkur inn af bekknum í nótt.
James Harden kom sterkur inn af bekknum í nótt. AFP

James Harden sneri aftur í lið Brooklyn Nets þegar liðið vann góðan 128:116 liðssigur gegn San Antonio Spurs í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt. Línur eru farnar að skýrast hvað úrslitakeppni og umspil deildarinnar varðar. 

Harden kom inn á af bekknum og náði tvöfaldri tvennu; gerði 18 stig og gaf 11 stoðsendingar auk þess að taka sjö fráköst.

Hann var búinn að missa af síðustu 18 leikjum Brooklyn vegna meiðsla en virtist fyllilega vera búinn að jafna sig á þeim í leiknum í nótt.

Annan leikinn í röð var um afar góða liðsframmistöðu að ræða hjá Brooklyn þar sem átta leikmenn skoruðu 12 stig eða meira. Stigahæstur var Landry Shamet með 21 stig en þar á eftir komu Harden og Nicolas Claxton báðir með 18 stig.

Alls voru sex leikir spilaðir í NBA-deildinni í nótt.

Öll úrslit næturinnar:

Brooklyn – San Antonio 128:116

Atlanta – Washington 120:116

Cleveland – Boston 102:94

Dallas – New Orleans 125:107

Utah – Portland 98:105

LA Lakers – Houston 124:122

Í Austurdeild eru Philadelphia, Brooklyn, Milwaukee, Atlanta, Miami og New York búin að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni og Boston, Charlotte og Indiana örugg í að minnsta kosti umspilið. Washington og Chicago berjast um síðasta sætið í umspilinu.

Í Vesturdeild eru Utah, Phoenix, LA Clippers og Denver komin áfram í úrslitakeppnina og Portland, Dallas, LA Lakers, Golden State og Memphis örugg í að minnsta kosti umspilið. San Antonio og Sacramento berjast um síðasta sætið.

Sex efstu lið í hvorri deild fara beint í úrslitakeppnina en liðin í 7. - 10. sæti fara í umspil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert