„Fyrst og fremst mjög þakklátur“

Ægir Þór Steinarsson og Adomas Drungilas í baráttunni í öðrum …
Ægir Þór Steinarsson og Adomas Drungilas í baráttunni í öðrum leik Stjörnunnar og Þórs frá Þorlákshöfn fyrr í mánuðinum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ægir Þór Steinarsson, leikmaður Stjörnunnar, var svekktur með 74:92 tapið gegn Þór frá Þorlákshöfn í oddaleik liðanna í undanúrslitum Íslandsmótsins í körfuknattleik karla í Þorlákshöfn í kvöld, enda þýðir það að tímabili Garðbæinga er lokið.

„Ég held að þeir hafi bara komist á lagið. Við vorum með góða stjórn á leiknum og svo í lok fyrri hálfleiks og byrjun seinni hálfleiks þá „fíra“ þeir upp töpuðum boltum hjá okkur og það gaf þeim svona opnari lúkk, sem eru bara lúkk sem þeir eru vanir að fá.

Það var skriðið þeirra en við komum til baka úr því, en náðum svo ekki að ná aftur tökum á leiknum. Þeir komust bara á lagið einhvern veginn með opnari þriggja stiga skotum. Við skoruðum ekki á löngum köflum en á sama tíma náðu þeir að skora. Þeir fengu móment og nýttu sér það,“ sagði Ægir Þór í samtali við mbl.is eftir leik.

Þrátt fyrir svekkjandi endi á tímabilinu kvaðst hann þakklátur fyrir margt þegar hann lítur um öxl. „Ég er fyrst og fremst mjög þakklátur fyrir þessa liðsfélaga mína og þjálfara, allt starfsliðið og áhorfendur yfir allt tímabilið.

Þetta er búin að vera mjög skemmtileg úrslitakeppni, sérstaklega að fá þessa áhorfendur inn og bara hasar, það er búið að vera mjög kærkomið,“ sagði Ægir Þór og bætti við:

En þetta hefur verið langt og strangt tímabil sem er búið að vera mjög lærdómsríkt og þó við séum svekktir þá held ég að við eigum bara góðar minningar frá þessu tímabili sem liðsfélagar. Svo er fólkið sem maður kynnist og allt svoleiðis.

Við erum náttúrulega virkilega svekktir núna, við ætluðum að fara alla leið. Við erum svekktir akkúrat núna en ég held að við getum litið á vinskapinn seinna meir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert