Bikarmeistararnir aftur í úrslit

Helena Sverrisdóttir og Keira Robinson leita að boltanum ásamt leikmanni …
Helena Sverrisdóttir og Keira Robinson leita að boltanum ásamt leikmanni Njarðvíkur. mbl.is/Arnþór Birkisson

Ríkjandi bikarmeistarar Haukar leika til úrslita í bikarkeppni kvenna í körfuknattleik, VÍS-bikarnum, annað árið í röð. Í kvöld vann liðið öruggan 83:57-sigur á Njarðvík og mætir Breiðabliki í úrslitaleiknum á laugardagskövld.

Gífurlegt jafnræði var með liðunum til að byrja með. Liðin skiptust á að skora og lítið sem ekkert bar á milli. Haukar enduðu fyrsta leikhlutann þó á góðum nótum og komust fjórum stigum yfir, 22:17, áður en honum lauk.

Njarðvíkingar voru fljótir að snúa taflinu við í öðrum leikhluta og komust yfir, 25:27, um stund. Áfram var því allt í járnum og komst Njarðvík einnig 30:31 yfir. Haukar skoruðu hins vegar næstu fjögur stig og náðu forystunni á ný, 34:31.

Þá var skammt eftir af öðrum leikhluta. Kamilla Sól Viktorsdóttir jafnaði metin í 34:34 með laglegri þriggja stiga körfu en þá fór í hönd frábær kafli hjá Haukum.

Helena Sverrisdóttir tók nefnilega til sinna ráða þar sem hún setti fyrst niður tvö vítaskot, þá þriggja stiga körfu og loks aðra þriggja stiga körfu. Munurinn skyndilega orðinn átta stig en Haukar áttu einn ás til viðbótar eftir í erminni.

Eftir að lokasókn Njarðvíkinga rann út í sandinn undir blálok annars leikhluta geystust Haukar fram, Tinna Guðrún Alexandersdóttir tók þriggja stiga skot langt fyrir utan og boltinn hafnaði ofan í körfunni, flautukarfa.

Eftir gífurlega jafnan leik framan af fyrri hálfleik leiddu Haukar því með 11 stigum, 45:34, í leikhléi.

Þriðji leikhluti fór afar rólega af stað og áttu bæði lið í talsverðum vandræðum með að skora lengi vel. Það var Haukum í hag þar sem Njarðvík náði einungis að minnka muninn niður í átta stig nokkrum sinnum í leikhlutanum.

Mest náðu Haukar 12 stiga forystu, 53:41, í leikhlutanum og leiddu með 11 stigum, 58:47, að honum loknum.

Í fjórða og síðasta leikhluta sýndu Haukar mátt sinn og megin. Njarðvík hitti varla úr skoti á meðan Haukar sölluðu niður stigunum.

Munurinn jókst bara og jókst og varð mestur 32 stig, 83:51.

Að lokum sigldu Haukar afar öruggum 26 stiga sigri, 83:57, í höfn og fá því kost á því að verja bikarmeistaratitil sinn á laugardagskvöld.

Lovísa Björt Henningsdóttir fór á kostum í leiknum og var stigahæst með 24 stig, þar af hitti hún úr þremur af fimm þriggja stiga skotum sínum. Auk þess tók hún sjö fráköst.

Bríet Sif Hinriksdóttir kom þá sterk inn af bekknum og skoraði 16 stig. Þá tók hún fimm fráköst.

Stigahæst í liði Njarðvíkur var Diane Oumou með 18 stig. Tók hún auk þess níu fráköst.

Aliyah Collier náði þá tvöfaldri tvennu er hún skoraði 15 stig og tók 13 fráköst fyrir Njarðvík.

Gangur leiksins:: 4:5, 10:11, 15:14, 17:21, 22:23, 29:27, 31:32, 34:42, 38:47, 41:49, 45:53, 47:58, 51:65, 51:72, 51:83, 57:83.

Njarðvík: Diane Diéné Oumou 18/9 fráköst, Aliyah A'taeya Collier 15/13 fráköst, Lavína Joao Gomes De Silva 8/5 fráköst, Vilborg Jonsdottir 5, Kamilla Sól Viktorsdóttir 3, Krista Gló Magnúsdóttir 2, Lára Ösp Ásgeirsdóttir 2, Anna Lilja Ásgeirsdóttir 2.

Fráköst: 18 í vörn, 17 í sókn.

Haukar: Lovísa Björt Henningsdóttir 24/7 fráköst, Bríet Sif Hinriksdóttir 16/5 fráköst, Magdalena Gísladóttir 13/9 fráköst/7 stoðsendingar, Helena Sverrisdóttir 9/10 fráköst, Eva Margrét Kristjánsdóttir 9, Tinna Guðrún Alexandersdóttir 6, Jana Falsdóttir 4, Sólrún Inga Gísladóttir 2.

Fráköst: 26 í vörn, 11 í sókn.

Dómarar: Aðalsteinn Hjartarson, Davíð Kristján Hreiðarsson, Stefán Kristinsson.

Áhorfendur: 446

Njarðvík 57:83 Haukar opna loka
99. mín. skorar
mbl.is