Örugglega partí í Færeyjum í kvöld

Kristófer Acox fagnar vel í leikslok.
Kristófer Acox fagnar vel í leikslok. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Mér líður ógeðslega vel og er ánægður og stoltur. Ég er enn í vímu og á sama tíma er ég ógeðslega þreyttur,“ sagði kampakátur Kristófer Acox, fyrirliði Vals, í samtali við mbl.is eftir að liðið varð Íslandsmeistari í körfubolta með 73:60-heimasigri á Tindastóli í oddaleik í kvöld.

Titillinn er sá fyrsti hjá Val í 39 ár og var því kátt í Origo-höllinni á Hlíðarenda. Kristófer er hinsvegar orðinn vanur maður enda þrefaldur meistari með KR á sínum tíma. „Þetta er tilfinning sem maður sækist í og að fá að upplifa hana svona oft er geggjað.“

Þreyttur í allt sumar

Leikurinn var hnífjafn í fyrri hálfleik en Valsmenn voru sterkari í seinni hálfleik og unnu að lokum nokkuð öruggan sigur. „Við héldum áfram. Við vissum að við værum þreyttir og þeir voru þreyttir. Þetta er búið að vera erfið sería og menn eru búnir að vera mjög þreyttir. Maður finnur alltaf þetta auka frá stuðningsmönnunum og maður fær orku. Maður verður enn þreyttari á morgun og í allt sumar. Maður verður bara að halda áfram, hvort sem maður er yfir með tíu eða undir með tíu.“

Stuðningsmenn Tindastóls sungu um að Kristófer væri frá Færeyjum hvaðan móðir hans er ættuð. Hann sér lítið af því að vera Færeyingur. „Ég myndi alltaf vilja vera Færeyingur á Króknum. Ég er kominn með fánann og mamma, sem er færeysk, er mjög stolt. Það er örugglega partí í Færeyjum í kvöld,“ sagði Kristófer. Hann hélt á færeyskum fána á meðan á viðtalinu stóð og einhverju sem líktist göngustaf. „Ég er að drepast í fætinum, svo það verður gott að hafa þetta,“ sagði hann hlæjandi.“

Kristófer Acox tekur við Íslandsmeistarabikarnum í kvöld.
Kristófer Acox tekur við Íslandsmeistarabikarnum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kristófer varð í þrígang Íslandsmeistari með uppeldisfélaginu KR en hann segir titilinn í ár vera enn sætari. „Það er erfitt að bera þetta saman. Þetta er alltaf frábært og mikill heiður og að fá að upplifa þetta í fjórða sinn er frábært. Það er aðeins sætara að fá að gera þetta hérna því maður kemur inn í lið sem hefur ekki unnið í 39 ár. Það er frábært að lyfta bikarnum loksins í þessu heimili.“

Kristófer varð meistari með Pavel Ermolinski og þjálfaranum Finni Frey Stefánssyni hjá KR. Hann tók heiðurinn á því að Pavel hafi sett mikilvæg skot niður í seinni hálfleik. „Pavel er minn maður. Hann er búinn að væla í mér alla seríuna að hann þurfi nýjar undirbuxur en ég gleymdi þeim alltaf. Ég fór loksins að ná í þær áðan og ætli það sé ekki mér að þakka að hann setti þessi stóru skot í seinni hálfleik. Svo er Finnur og allt liðið frábært. Ég gæti nefnt allt liðið.“

Landsliðsmaðurinn ætlar að fagna áfanganum vel og innilega. „Maður verður að fagna. Þetta er búið að vera erfitt tímabil og nú fagnar maður helvíti harkalega næstu daga,“ sagði Kristófer.

Stuðningsmenn Vals fagna vel og innilega í kvöld.
Stuðningsmenn Vals fagna vel og innilega í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is