„Ferð ekki í neinn leik og færð gefins tvö stig“

Njarðvík fagnar sigri í Meistarakeppni KKÍ síðastliðinn sunnudag.
Njarðvík fagnar sigri í Meistarakeppni KKÍ síðastliðinn sunnudag. Ljósmynd/Skúli B. Sigurðsson

Rúnar Ingi Erlingsson, þjálfari kvennaliðs Njarðvíkur í körfuknattleik, segir mikla tilhlökkun ríkja innan herbúða liðsins þar sem það mun á tímabilinu freista þess að verja Íslandsmeistaratitil sinn.

Á kynningarfundi úrvalsdeildar kvenna, Subway-deildarinnar, fyrir komandi tímabil í síðustu viku var Njarðvík spáð öðru sæti af bæði félögunum og fjölmiðlum.

„Tímabilið leggst rosalega vel í okkur. Við erum full tilhlökkunar fyrir spennandi vetri. Það er gaman að sjá svona spá.

Þetta er alltaf svona ákveðið tékk á þessum árstíma, sem hefur auðvitað ekkert um það að segja hvað gerist inni á vellinum,“ sagði Rúnar Ingi í samtali við mbl.is á kynningarfundinum fyrir sléttri viku síðan.

ÍR-ingar óskrifað blað

Hann sagði nýliða ÍR, sem var spáð áttunda og neðsta sæti af bæði félögunum og fjölmiðlum, vera óskrifað blað en að búast mætti við jafnri og spennandi deild.

„ÍR-ingarnir eiga eftir að sýna okkur hvar þeir eru en fyrir mér eru þessi sjö lið sem voru í deildinni í fyrra, ég held að þau verði öll að týna sigra hér og þar af hvoru öðru.

Það gæti auðvitað alveg gerst að einhver lið nái að slíta sig aðeins frá en ég held að leikirnir sem slíkir eigi eftir að verða alvöru barátta.

Þú ferð ekki í neinn leik og færð gefins tvö stig. Við þurfum að spila okkur saman og gera okkar besta til þess að ná því fram sem við getum úr okkar liði.“

Alvöru prófraunir fram undan

Njarðvík hafði betur gegn Haukum, sem er spáð fyrsta sæti Subway-deildarinnar, í Meistarakeppni KKÍ, á sunnudag og mætir Keflavík þar í bæ í Suðurnesjaslag í fyrsta leik liðanna í deildinni í kvöld.

Spurður út í stöðuna á leikmannahópi Njarðvíkur fyrir tímabilið sagði Rúnar Ingi að lokum:

 „Staðan á hópnum er fín. Við erum kannski ekki búin að vera neitt rosalega lengi saman sem heildar eining en við erum núna hratt og örugglega að setja inn og vinna í því sem við viljum gera, sérstaklega sóknarlega. Svo verða alvöru prófraunir á næstu viku.

Það eru Haukar í Meisturum meistaranna á sunnudaginn [var] og svo Keflavík í fyrsta leik í deild á miðvikudaginn. Staðan á hópnum er góð, það er auðvitað alltaf eitthvað hnjask hér og þar en annars bara allir hressir og spenntir að byrja nýtt tímabil.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert