Arnar kominn í þjálfarateymi danska landsliðsins

Arnar Guðjónsson er þjálfari Stjörnunnar og verður nú líka aðstoðarþjálfari …
Arnar Guðjónsson er þjálfari Stjörnunnar og verður nú líka aðstoðarþjálfari danska landsliðsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Arnar Guðjónsson, þjálfari karlaliðs Stjörnunnar í körfuknattleik, er kominn í þjálfarateymi danska karlalandsliðsins og gegnir þar starfi aðstoðarþjálfara.

Arnar þekkir vel til í Danmörku því hann þjálfaði þar um árabil. Þar var hann aðstoðarmaður Allan Foss hjá Abyhöj frá Árósum og vann síðan með Craig Pedersen, landsliðsþjálfara Íslands, hjá Svendborg, fyrst sem aðstoðarþjálfari, en tók síðan við sem þjálfari liðsins af Pedersen. Þá var Arnar um tíma aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins, undir stjórn Pedersens.

Foss var einmitt ráðinn landsliðsþjálfari Dana í dag og fékk Arnar í lið með sér. „Arnar er með mikla reynslu af þjálfun í Danmörku, og hefur fengið alþjóðlega reynslu með því að vera aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins, sem hann fór með á EM. Hann er reyndur þjálfari sem bæði ég og leikmennirnir munu njóta góðs af að vinna með," sagði Foss við samfélagsmiðla danska körfuknattleikssambandsins.

Störf Arnars fyrir danska landsliðið ættu ekki að trufla hann að ráði í aðalstarfi sínu hjá Stjörnunni því landsleikir fara aðeins fram þegar hlé er á deildakeppnum.

mbl.is