Þessi er með þeim betri

Sara Rún Hinriksdóttir á vítalínunni í kvöld.
Sara Rún Hinriksdóttir á vítalínunni í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

„Það var klárlega sætt að klára þetta,“ sagði Sara Rún Hinriksdóttir, besti maður vallarins í 68:58-sigri Íslands á Rúmeníu í undankeppni EM, í samtali við mbl.is eftir leik.

Eftir jafnan leik reyndist íslenska liðið sterkara í fjórða leikhlutanum og tryggði sér tíu stiga sigur.

„Maður var orðinn smá stressaður þarna í lokin. Við vorum undir stóran hluta leiks, en náðum að sigla þessu heim í fjórða leikhluta. Þá sást viljinn okkar til að vinna leikinn. Það var geggjuð barátta hjá Evu og bara öllum,“ sagði hún og hélt áfram:

„Mér fannst við gera vel í að aðlagast leiknum. Ana Virjoghe var sterk undir körfunni en við náðum að stoppa hana og koma í veg fyrir að hún tæki fráköstin og kæmi sér þannig í færi.“

Sigurinn er sá fyrsti í keppnisleik hjá íslenska liðinu, frá því það vann Kýpur á Smáþjóðaleikunum árið 2019. „Það var kominn tími á þetta og vonandi náum við að byggja ofan á þetta.“

Sara skoraði 33 stig, tók sjö fráköst og gaf fimm stoðsendingar í leiknum. Hún segir þetta einn sinn besta landsleik, þrátt fyrir að nýta aðeins helming vítaskotanna sinna.

„Ég veit það ekki. Ég klúðraði svo mörgum vítum. Maður getur ekki átt fullkominn leik. Ég átti líka mjög góðan leik á móti Búlgaríu einhvern tímann en þessi er með þeim betri,“ sagði Sara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert