Dramatískur sigur ÍR opnaði fallbaráttuna

Luciano Masarelli sækir að körfu Grindavíkur í kvöld.
Luciano Masarelli sækir að körfu Grindavíkur í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

ÍR opnaði fallbaráttuna í Subway-deild karla í körfubolta með dramatískum 91:90-heimasigri á Grindavík í kvöld. ÍR er nú með átta stig og aðeins tveimur stigum frá öruggu sæti, eftir 15 leiki af 22. Grindavík er í sjöunda sæti með 14 stig.

Grindavík var betri aðilinn í fyrri hálfleik og eftir sjö stiga sigur í fyrsta leikhluta og fimm stiga sigur í öðrum leikhluta voru hálfleikstölur 51:39, Grindavík í vil.

ÍR neitaði hins vegar að gefast upp, minnkaði muninn í sex stig fyrir lokaleikhlutann, og vann síðan eftir æsipennnu í fjórða og síðasta leikhlutanum.

Staðan var 90:86, Grindavík í vil, þegar 46 sekúndur voru eftir. Þá skoraði Hákon Örn Hjálmarsson þriggja stiga körfu, minnkaði muninn í eitt stig, og Taylor Johns tryggði sigurinn með sniðskoti undir körfunni, fimm sekúndum fyrir leikslok.

Luciano Masarelli skoraði 25 stig og tók átta fráköst fyrir ÍR og Taylor Johns skoraði 17 stig og tók auk þess 14 fráköst.

Hjá Grindavík var Damier Pitts stigahæstur með 28 stig og gaf hann sömuleiðis átta stoðsendingar. Fyrirliðinn Ólafur Ólafsson skoraði 20 stig og tók átta fráköst.

Skógarsel, Subway deild karla, 03. febrúar 2023.

Gangur leiksins:: 1:6, 9:14, 12:23, 20:27, 24:29, 28:33, 33:37, 39:51, 44:56, 54:60, 56:64, 63:69, 72:71, 77:78, 82:85, 91:90.

ÍR: Luciano Nicolas Massarelli 25/8 fráköst, Taylor Maurice Johns 17/14 fráköst, Hákon Örn Hjálmarsson 16, Sigvaldi Eggertsson 11/4 fráköst, Martin Paasoja 11, Collin Anthony Pryor 6/5 fráköst, Ragnar Örn Bragason 5.

Fráköst: 28 í vörn, 9 í sókn.

Grindavík : Damier Erik Pitts 28/5 fráköst/8 stoðsendingar, Ólafur Ólafsson 20/8 fráköst, Gkay Gaios Skordilis 14/4 fráköst, Bragi Guðmundsson 13/3 varin skot, Zoran Vrkic 8/4 fráköst, Kristófer Breki Gylfason 5, Valdas Vasylius 2.

Fráköst: 22 í vörn, 5 í sókn.

Dómarar: Davíð Tómas Tómasson, Jakob Árni Ísleifsson, Aron Rúnarsson.

Áhorfendur: 168

mbl.is