Þarf ekki að endurspegla mat stjórnarinnar

Hallgrímur Brynjólfsson, þjálfari Fjölnis.
Hallgrímur Brynjólfsson, þjálfari Fjölnis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hallgrímur Brynjólfsson þjálfari kvennaliðs Fjölnis í körfubolta var stoltur af leikmönnum liðsins þrátt fyrir að tapa 3:0 í einvíginu gegn deildar-og bikarmeisturum Keflavíkur í kvöld.

Hallgrímur hafði þetta að segja eftir leik:

„Ég er heilt yfir mjög sáttur. Það væri eitthvað mjög mikið að mér ef ég væri eitthvað ósáttur við liðið mitt að spila á móti Keflavík þar sem það er valinn leikmaður í hverri stöðu.

Ég hef sagt áður að fyrsti leikmaður á bekknum hjá mér er 18 ára. Hjá Keflavík eru fyrstu tvær A-landsliðskonur.“

Hallgrímur hélt áfram:

„Vissulega eru tímapunktar í þessari seríu þar sem það kemur uppgjöf og vonleysi hjá okkur en ég sá það ekki í kvöld og ég er rosalega ánægður og stoltur yfir því. Við vorum að spila á móti besta og flottasta liði landsins í kvöld.“

Verður þú áfram með Fjölni á næsta tímabili?

„Við eigum eftir að ræða saman reikna ég með. Þó að ég sé kokhraustur og flottur þá þarf það ekkert að endurspegla mat stjórnarinnar,“ svaraði hann.

Eru einhverjar breytingar yfirvofandi hjá liði Fjölnis fyrir næsta tímabil?

„Já, Heiður [Karlsdóttir] er að fara út í háskólaboltann í Wyoming þar sem Dagný Lísa [Davíðsdóttir] var. Við erum samt ekki komin svo langt að fara að spá í þessu.

Í kvöld sleikjum við sárin eða verðum rosalega stoltar og síðan í næstu eða þarnæstu viku þá förum við að kíkja á þessi mál ef áhugi er fyrir hendi,“ sagði Hallgrímur að lokum í samtali við mbl.is 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert