Khabib hættur við að hætta?

Snýr Khabib Nurmagomedov aftur í búrið?
Snýr Khabib Nurmagomedov aftur í búrið? AFP

Rússneski bardagamaðurinn Khabib Nurmagomedov, léttvigtarmeistari í UFC í blönduðum bardagalistum, hefur gefið í skyn að hann hyggist hætta við að hætta.

Eftir að hafa varið léttvigtartitil sinn í UFC með sigri á Justin Gaethje 24. október síðastliðinn tilkynnti Khabib að hann væri hættur. Á ferli sínum var hann ósigraður, þar sem hann vann 29 af 29 bardögum.

Khabib sagðist þá hafa lofað móður sinni að hætta að berjast eftir að faðir hans og þjálfari, Abdulmanap, lést í júlí síðastliðnum eftir að hafa smitast af kórónuveirunni í kjölfar þess að hafa gengist undir hjartaaðgerð.

„Það er ekki nokkur möguleiki á því að ég komi hérna án föður míns. UFC hafði samband við mig varðandi Justin og það var í fyrsta sinn sem það var gert eftir það sem kom fyrir föður minn. Ég talaði við móður mína í þrjá daga. Hún vildi ekki að ég myndi berjast án föður míns en ég lofaði henni að þetta yrði síðasti bardagi minn. Ef ég lofa einhverju verð ég að standa við það, þetta var síðasti bardagi minn í UFC,“ sagði Khabib eftir sigurinn gegn Gaethje.

Á Twitter-aðgangi sínum í dag gaf hann þó endurkomu í skyn þegar hann skrifaði til Dana White, forseta UFC: „Sendu mér staðsetningu.“

Í gegnum tíðina hefur Khabib sent White þessi sömu skilaboð á Twitter þegar hann hefur viljað berjast. Áhugavert verður því að fylgjast með því á næstunni hvort eitthvað verði af endurkomu léttvigtarmeistarans í búrið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert