McGregor ökklabrotnaði og tapaði

Conor McGregor á börum eftir að hann ökklabrotnaði í nótt.
Conor McGregor á börum eftir að hann ökklabrotnaði í nótt. AFP

Írinn Conor McGregor og Bandaríkjamaðurinn Dustin Poirier mættust í aðalbardaga UFC 264 í blönduðum bardagalistum í nótt. Poirier hafði betur eftir að stöðva þurfti bardagann í kjölfar þess að McGregor ökklabrotnaði undir lok 1. lotu.

McGregor byrjaði af krafti en Poirier óx ásmegin og náði að lenda mörgum þungum höggum í gólfinu.

Undir lok lotunnar reyndi McGregor hengingu en Poirier slapp úr henni og með McGregor liggjandi á gólfinu reyndi Poirier að klára með þungum höggum.

Fyrsta lotan var þó úti áður en Poirier náði að rota McGregor og hélt McGregor um fót sinn og gat ekki staðið upp. Endursýningar sýndu svo enginn vafi var á að McGregor hafði snúið illa upp á ökklann sinn.

Herb Dean dómari stöðvaði því bardagann og Poirier sigraði með tæknilegu rothöggi.

Conor McGregor og Dustin Poirier í bardaganum í nótt.
Conor McGregor og Dustin Poirier í bardaganum í nótt. AFP

McGregor var augljóslega súr með niðurstöðuna og það var Dana White, forseti UFC, einnig.

„Bardaginn kláraðist ekki. Það er ekki hægt að láta bardaga klárast svona. Við sjáum hvað setur.Við vitum ekki hve lengi Conor verður frá.

Poirier mun gera sitt þar til Conor verður tilbúinn,“ sagði White á blaðamannafundi eftir bardagann, þar sem hann staðfesti að McGregor fari í aðgerð á ökklanum í dag.

Hann sagði kappana verða að mætast í fjórða sinn og að stefnt verði að því, en hvenær sá bardagi geti átt sér stað velti á því hversu lengi McGregor verði frá og hversu mikla endurhæfingu hann komi til með að þurfa.

McGregor hafði betur í fyrsta bardaga þeirra árið 2014 en Poirier er núna búinn að vinna tvo í röð; í nótt og í janúar síðastliðnum þegar McGregor var rotaður í fyrsta skipti á ferli sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert