Öruggur sigur Noregs í öðrum leik

Kari Brattset Dale skoraði tvö mörk fyrir Noreg en hér …
Kari Brattset Dale skoraði tvö mörk fyrir Noreg en hér er hún í leiknum í dag. AFP

Stöllur Þóris Hergeirssonar í norska kvennalandsliðinu í handknattleik unnu 30:21-sigur á Angóla í annarri umferðinni á Ólympíuleikunum í Tókýó í dag.

Eftir nokkuð jafna byrjun var norska liðið lengst af með leikinn í hendi sér en staðan var 15:10 í hálfleik. Sanna Solberg var markahæst með sjö mörk.

Noregur er því með fullt hús stiga eftir tvo leiki en mætir næst Svartfjallalandi á fimmtudaginn.

Þórir Hergeirsson á hliðarlínunni gegn Angóla.
Þórir Hergeirsson á hliðarlínunni gegn Angóla. AFP

Heimakonur í Japan unnu fyrsta leik dagsins, sem var spilaður í nótt, 29:26, gegn Svartfjallalandi en Ayaka Ikehara og Nozomi Hara voru markahæstar í liði Japan með sex mörk. Tatjana Brnovic skoraði einnig sex mörk fyrir Svartfjallaland en bæði lið hafa nú unnið einn og tapað einum í A-riðlinum. Holland vann 43:36-stórsigur á Suður-Kóreu og er með fullt hús stiga ásamt Noregi.

Í B-riðli voru svo tveir leikir í morgun. Brasilía vann 33:27-sigur á Ungverjum og Svíar unnu lið Rússa, 36:24. Svíþjóð er með fjögur stig eftir leikina sína tvo en Brasilía er í öðru sæti með þrjú stig eftir jafntefli gegn Rússum í fyrstu umferðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert