Frakkar í vandræðum – allt í járnum í báðum riðlum

Eduarda Amorim Taleska í baráttu við Jenny Carlson þegar Brasilia …
Eduarda Amorim Taleska í baráttu við Jenny Carlson þegar Brasilia og Svíþjóð mættust í hörkuleik í morgun. AFP

Kvennalið Frakklands í handknattleik er í erfiðri stöðu í B-riðlinum á Ólympíuleikunum eftir naumt tap gegn rússnesku ólympíunefndinni í morgun. Angóla vann þá Japan í A-riðlinum og opnaði hann þar með upp á gátt.

Rússneska ólympíunefndin hafði betur, 28:27, gegn Frökkum og kom sér þar með í annað sæti B-riðils. Frakkar eru hins vegar í fimmta sæti og eiga þar með á hættu að missa sæti í fjórðungsúrslitum, en efstu fjögur sæti beggja riðla gefa sæti þar.

Svíþjóð vann Brasilíu 34:31, og er þar með komin langt með að tryggja sér efsta sæti riðilsins.

Úrslitin eru góð fyrir Frakka, þar sem Brasilía er í fjórða sætinu með þrjú stig, jafn mörg og Frakkar. Frakkland og Brasilía mætast einmitt í lokaumferðinni.

Angóla vann góðan 28:25-sigur gegn heimakonum í Japan og þar með er baráttan um síðasta sætið í fjórðungsúrslitunum í A-riðlinum hnífjöfn.

Svartfjallaland kom sér í góða stöðu í þriðja sætinu með 28:26-sigri gegn Suður-Kóreu og er nú með fjögur stig.

Suður-Kórea er áfram í fjórða sætinu með tvö stig, en strax í humátt í fimmta og sjötta sæti koma Angóla og Japan, einnig með tvö stig. Öll þrjú liðin munu því gera harða atlögu að því að ná fjórða sætinu.

Suður-Kórea og Angóla munu einmitt mætast í lokaumferðinni en heimakonur í Japan standa verst að vígi, enda eiga þær eftir leik gegn ógnarsterku liði Noregs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert