Már óviss um framhaldið: Kannski mitt eina Ólympíumót

Már Gunnarsson á viðtalssvæði sundhallarinnar í Tókýó.
Már Gunnarsson á viðtalssvæði sundhallarinnar í Tókýó. Ljósmynd/ÍF

Már Gunnarsson er óviss um hvort hann eigi eftir að keppa á fleiri Ólympíumótum í sundi en hann sagði við mbl.is eftir lokagrein sína í Tókýó í morgun, 100 metra flugsundið, að nú þyrfti hann að taka sér frí og hugsa sinn gang fyrir næstu árin.

Már varð ellefti í flugsundinu í morgun en áður varð hann fimmti í 100 metra baksundi, áttundi í 200 metra fjórsundi og þrettándi í 50 metra skriðsundi á mótinu. Hann var örskammt frá bronsverðlaununum í baksundinu þar sem langtímamarkmið hans hafði verið að komast á verðlaunapallinn.

Hann náði sér ekki fyllilega á strik í flugsundinu og var rúmum þremur sekúndum frá Íslandsmeti sínu frá því á EM í vor, þegar hann varð fjórði í greininni, en hann hefði komist í úrslit með því að bæta metið um 40/100 úr sekúndu.

„Nei, ég var vel frá metinu að þessu sinni og það er auðvitað pínulítið svekkjandi, en þreytan og spennan voru farin að segja talsvert til sín. Þessu var ætlað að fara svona og nú er þessu verkefni lokið, sem er búið að vera í raun mitt aðalverkefni undanfarin ár," sagði Már við mbl.is að sundinu loknu.

Hefði alveg getað beðið um meira

Már Gunnarsson að keppni lokinni í dag.
Már Gunnarsson að keppni lokinni í dag. Ljósmynd/Gunnar Már

„Auðvitað reyndi ég að bæta mig og lagði mikið í þetta sund en sennilega var þetta bara orðið gott. Þetta var fjórða greinin hjá mér og ég var búinn að fara í úrslit í tveimur þeirra. Maður er búinn að synda á hverjum degi í þrjár vikur og það var farið að sitja í mér.

Ég kem heim af þessu móti með eitt Íslandsmet og var sekúndu frá gulli í 100 metra baksundi. Jú, ég hefði alveg getað beðið um meira en við þessar aðstæður sem maður er búinn að vera að keppa, álagið síðustu tvö ár, öll æfingastoppin sem maður þurfti að gangast undir í kóvid, sem margir af mínum keppinautum þurftu reyndar ekki að gangast undir, og þar höfðu þeir ákveðið forskot á mig, þá finnst mér bara gott að vera búinn með þetta og mér er létt, í sjálfu sér," sagði Már.

En hvernig verður framhaldið hjá þér eftir þetta mót og hvert stefnirðu í sundinu?

Már Gunnarsson tilbúinn fyrir keppnina í 100 m flugsundi.
Már Gunnarsson tilbúinn fyrir keppnina í 100 m flugsundi. Ljósmynd/ÍF

„Núna þarf ég að hvíla mig vel og hugsa minn gang. Ég er einn af bestu blindu baksundsmönnum í heimi, við erum þarna nokkrir á sömu sekúndunni, og það er bara eitthvað útfærsluatriði hjá mér sem myndi koma mér ofar en þeir á listanum.

Ég á því gríðarlega góða möguleika fyrir París 2024 en síðan er líka gríðarlega mikill músíkant í mér sem þarf að fá útrás og þarf að sinna, þannig að ég ætla bara að fara heim, taka mér frí, og hugsa hvert ég vil fara með mitt líf og hvað ég vil gera. Hvernig ég vil skipuleggja mig.“

Er ég tilbúinn í annan svona pakka?

Þú ert sem sagt ekki búinn að taka ákvörðun um hvort þú stefnir á HM á næsta ári og hvort þú stefnir á næsta Ólympíumót í París árið 2024?

Már Gunnarsson stingur sér í 100 m flugsundinu.
Már Gunnarsson stingur sér í 100 m flugsundinu. Ljósmynd/ÍF

„Nei, alls ekki. Ég held að mér séu allir vegir færir. Núna þarf ég að fara heim og hugsa hvaða veg og hvaða leið ég á að velja. Það kæmi líka til greina að einbeita mér alfarið að  baksundinu. Það er rosalega margt í boði og hver veit. Kannski var þetta mitt fyrsta og síðasta Ólympíumót, kannski ekki, ég þarf að fara heim og hugsa hvernig mér líður.

Er ég tilbúinn í annan svona pakka? Hvað vil ég? Vil ég verða besti baksundsmaður í heimi eða dugar mér að ná lágmarkinu og komast hingað? Það fer bara allt eftir því hverjar mínar langanir og þrár verða.“

Þarf að finna minn rétta veg

„Ég er hinsvegar handviss um að mér eru allir vegir færir. Ég þarf bara að finna rétta veginn og líka þann veg sem er minn rétti vegur. Ekki fyrir einhverja aðra eða út af væntingum annarra. Ég þarf tíma til að komast að þessari niðurstöðu. En hvaða veg sem ég mun velja, þá mun alltaf koma eitthvað gott út úr því, og sérstaklega ef ég fylgi bara mínu hjarta. Það skiptir mestu máli.

En það sem ég er 100 prósent viss um er að stórsýning Más Gunnarssonar er rétt að byrja!" sagði Már brosandi í lok okkar sjötta og síðasta spjalls á viðtalssvæði sundhallarinnar glæsilegu, Tokyo Aquatic Center, að lokinni keppni hjá honum í Tókýó.

Hann verður nú einn eftir af íslensku keppendunum í japönsku höfuðborginni um helgina og verður fánaberi á lokaathöfn Ólympíumótsins á sunnudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert