Regnbogasilungur veiðist á Vestfjörðum

Regnbogasilungurinn sem veiddist í Selá, Ísafjarðadjúpi, þann 7. júlí sl.
Regnbogasilungurinn sem veiddist í Selá, Ísafjarðadjúpi, þann 7. júlí sl. angling.is

Á vef Landssambands veiðifélaga er greint frá því að regnbogasilungur hafi þann 7. júlí síðastliðinn veiðst í Selá í Ísafjarðardjúpi.

Fram kemur að fiskurinn hafi verið sendur til greiningar hjá sérfræðingum Hafrannsóknarstofnunar og þar var staðfest að um væri að ræða regnbogasilung. Regnbogasilungurinn var í góðum holdum og hefur væntanlega lifað af veturinn í vellystingum að mati sérfræðinga.

Enn eru því regnbogasilungar, sem hafa sloppið úr eldi, að koma fram í veiði, en Landssamband veiðifélaga fékk fyrst upplýsingar um að verulegt magn af regnbogasilungi væri á sveimi í sjó á Vestfjörðum 13. júní árið 2016. Ábendingu um það var komið á framfæri við eftirlitsaðila. Ekkert fyrirtæki kannaðist þá við að hafa misst fisk. Síðan þá hefur regnbogasilungur verið að veiðast í fjölda vatnsfalla á Vesturlandi, Vestfjörðum og Norðvesturlandi. Landssamband veiðifélaga hefur margoft haft samband við eftirlitsstofnanir, óskað eftir opinberri rannsókn, auk þess að kæra málið til lögreglu. Átta mánuðum seinna var viðurkennt að það sé gat á kví.

Sendu ábendingu um frétt
eða myndir á veidi@mbl.is
mbl.is

Bloggað um fréttina