Íslenskt SMS-fyrirtæki semur við Bon Jovi og LA Dodgers

Auglýsing frá Ski Dazzle þar sem þátttakendur eiga þess kost …
Auglýsing frá Ski Dazzle þar sem þátttakendur eiga þess kost að fá send SMS-skeyti á meðan sýningin stendur yfir.

Íslenska fyrirtækið SmartSMS USA, sem rekur virðisaukandi þjónustur fyrir GSM í Bandaríkjunum, hefur gert samkomulag við hljómsveitina Bon Jovi og hafnaboltaliðið LA Dodgers um SMS-þjónustur.

Samningurinn við Bon Jovi felur í sér að SmartSMS býr til SMS-þjónustur, sem hljómsveitin hyggst taka í notkun. Halldór Viðar Sanne, framkvæmdastjóri SmartSMS USA, segir að hugmyndin feli meðal annars í sér að aðdáendur hljómsveitarinnar geti hvar sem er í heiminum fengið send persónuleg skilaboð, sem í raun séu fjöldaskilaboð, um það sem máli skiptir um liðsmenn hljómsveitarinnar. „Notendur senda inn fyrirspurn með númeri sínu sem er komið fyrir í gagnagrunni. Í framhaldi geta þeir fengið send skilaboð frá sveitinni eins og þá lystir,” segir Halldór.

Spurður hvernig það hafi komið til að SmartSMS í Bandaríkjunum náði samningum við Bon Jovi segir Halldór að fyrirtækið hafi einfaldlega boðið umboðsskrifstofu sveitarinnar hugmyndina, sem hafi vakið athygli meðal starfsfólks Bon Jovi. „Það er mikið til af SMS-fyrirtækjum í Bandaríkjunum, en það sem okkar fyrirtæki hefur mögulega umfram þau bandarísku er að við höfum starfað á Íslandi, þar sem er fremur þróaður SMS-markaður miðað við úti, en SMS er rétt að slíta barnsskónum í Bandaríkjunum,” segir Halldór.

SmartSMS hefur unnið að fleiri SMS-verkefnum fyrir fyrirtæki í Bandaríkjunum, einkum á Los Angeles-svæðinu. Má þar nefna samning sem fyrirtækið gerði við hafnaboltaliðið LA Dodgers. Halldór segir að samningurinn kveði á um leiki, getraunir og annað sem til fellur fyrir SMS-þjónustur, en LA Dodgers hefur áhuga á því til þess að byrja með að fá áhorfendur á leikjum liðsins, en leikvangurinn tekur um 60 þúsund manns, til að taka þátt í getraunum og leikjum um SMS. „Við erum sérlega ánægðir með að hafa náð samningum við LA Dodgers, sem býr yfir einu þekktasta vörumerki innan bandaríska íþróttaheimsins.”

Annað verkefni, sem SmartSMS er að vinna að, er í tengslum við fyrirtæki sem rekur eina stærstu skíða- og snjóbrettasýningu (Ski Dazzle) í Bandaríkjunum, en fyrsta sýningin var haldin fyrir 15 árum og eru þær nú haldnar tvisvar á ári, ein í Los Angeles og önnur í Chicago. Gert er ráð fyrir að um 130 þúsund manns sæki sýninguna í Los Angeles á þremur dögum og er áætlað að um 10 þúsund SMS-skeyti verði send út á hverjum degi í það minnsta þá daga er sýningin stendur yfir með upplýsingum um tilboð eða áhugaverða viðburði á sýningunni. Halldór segir að fjölmörg önnur verkefni séu í deiglunni, svo sem verkefni sem snýr að aðdáendaklúbbi Matrix-kvikmyndarinnar, leikkonunni Pamelu Anderson, söngkonunni Christinu Aguilera og Hustler-útgáfunni.

Halldór segir að það hafi kostað fyrirtækið talsverða fjármuni að hasla sér völl erlendis, eða allt að því 15 milljónir á hálfu ári. „Við sjáum vonandi fyrir lokin á því. Við gerðum ráð fyrir tapi á árinu, en ef verkefnið með Bon Jovi og fleiri verkefni ganga vel er ekki loku fyrir það skotið að okkur takist að rétta hlut okkar fyrir árslok. Við erum hins vegar mjög jarðbundnir því við erum einungis búnir að handsala samninga, sem vonandi verða okkur mikilvægir þegar fram líða stundir.”

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK