Verðbólga mælist 6,8%

mbl.is

Vísitala neysluverðs hækkaði um 1,38% frá fyrra mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkaði um 1,55% frá janúar. Síðastliðna tólf mánuði (miðað við verðlag í upphafi mánaðar í fyrra en um miðjan mánuð nú) hefur vísitala neysluverðs hækkað um 6,8% en vísitala neysluverðs án húsnæðis um 3,9%. Verðbólgan hefur ekki mælst jafn mikil síðan í febrúar á síðasta ári er hún var 7,4% en taka verður tillit til þess að þann 1. mars lækkaði virðisaukaskattur á matvæli.

Verðbólga hefur ekki mælst undir 2,5% markmiði Seðlabanka Íslands frá því í apríl 2004.

Greiningardeild Kaupþings spáði 0,6% hækkun á vísitölu neysluverðs nú í febrúar. Greining Glitnis spáði því að vísitalan myndi hækka um 1% og greiningardeild Landsbankans spáði 1,1% hækkun.

Kostnaður vegna reksturs eigin bifreiðar jókst um 2,5% (vísitöluáhrif 0,36%). Þar af hækkaði verð á nýjum bílum um 2,6% (0,16%) og á bensíni og olíum um 3,6% (0,18%).

Vetrarútsölum er að ljúka og hækkaði verð á fötum og skóm um 9,1% (0,35%). Kostnaður vegna eigin húsnæðis jókst um 1,0% (0,20%), þar af voru 0,15% áhrif vegna hærri raunvaxta og 0,05% vegna hækkunar á markaðsverði húsnæðis. Þá hækkaði verð á mat og drykkjarvöru um 0,9% (0,12%). 

Fastskattavísitala neysluverðs hefur hækkað um 8,7% síðastliðna tólf mánuði og fastskattavísitala neysluverðs án húsnæðis um 6,4%. Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 2,3% sem jafngildir 9,3% verðbólgu á ári (8,6% fyrir vísitöluna án húsnæðis), samkvæmt frétt á vef Hagstofu Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK