Pakistanskur fjárfestir inn í Magasin og Illum

Verslunin Illum við Strikið í Kaupmannahöfn.
Verslunin Illum við Strikið í Kaupmannahöfn. mbl.is/GSH

Pakistanski fjárfestirinn Alshair Fiyaz hefur keypt hlut í dönsku stórverslununum Magasin og Illum. Mun hann eiga helmingshlut í fimm af sex fasteignum verslananna ásamt Straumi-Burðarási. Gert er ráð fyrir að nýtt hlutafé verði sett inn í rekstarfélög verslananna.

Tilkynnt var í morgun, að fasteignafélagið Landic Property hefði selt Straumi-Burðarási og fleiri fjárfestum  Magasin og Illum fasteignirnar. Straumur-Burðarás hefur átt rekstrarfélag verslananna en þau komust í eigu íslenska bankans þegar hann yfirtók 75% hlut Baugs í félaginu M-Holding í mars.

Um er að ræða sex fasteignir í Danmörku. Magasin rekur verslanir við Kongens Nytorv í Kaupmannahöfn og verslanir í Lyngby, Árósum og Óðinsvéum. Illum er á horni Østergade og Købmagergade í Kaupmannahöfn. Magasin á einnig vöruhús á Avedøre Holme. 

Fram kemur á viðskiptavef Jyllands-Posten, að nýstofnað félag, Solstra Holding A/S, kaupi fimm af fasteignunum sex og rekstrarfélag verslananna. Solstra er í eigu Straums og Fiyaz sem eiga 50% hlut hvor.

Solstra hefur einnig kauprétt á 49,9% hlut í fyrirtækinu, sem rekur flaggskip Magasinverslananna við Kongens Nytorv.

Verðugur arftaki Íslendinganna 

Fiyaz hefur á undanförnum þremur árum fjárfest fyrir yfir 5 milljarða dala í verslunarrekstri í Bretlandi og víðar í Evrópu og í Bandaríkjunum.  Á fréttavef Berlingske Tidende er Fiyaz sagður verðugur arftaki íslensku glaumgosafjárfestanna, sem reyndu að leggja undir sig verslunarrekstur í Danmörku. 

Berlingske segir, að Fiyaz sé í hinu evrópska þotuliði og þeytist á milli Parísar, Lundúna og St. Tropez.  Faðir Fiyaz auðgaðist á viðskiptum á sínum tíma en bæði Alshair og Javed bróðir hans hafa haslað sér völl í viðskiptalifinu á eigin forsendum.  

Alshair Fiyaz er sagður áhugasamur pololeikari og á pololið ásamt bróður sínum. 

mbl.is
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK