OR selur eignir fyrir 465 milljónir

Orkuveita Reykjavíkur.
Orkuveita Reykjavíkur. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Gengið hefur verið að tilboðum í þrjár fasteignir Orkuveitu Reykjavíkur sem auglýstar voru til sölu í vor og í sumar. Það eru hinar samliggjandi jarðir Hvammur og Hvammsvík í Kjós, Hótel Hengill á Nesjavöllum og húsnæði í Elliðaárdal, sem hýsti minjasafn OR.

Samanlagt söluverð eignanna nemur 465 milljónum króna. Það er heldur meira en væntingar OR stóðu til, sem byggðar voru á mati sérfræðinga á fasteignamarkaði, að því er OR segir í tilkynningu.

Jarðirnar Hvammur og Hvammsvík voru auglýstar til sölu í vor. Var gengið til samninga við hæstbjóðanda og fengust 155 milljónir króna fyrir eignina. OR er áfram eigandi jarðhita á jörðunum.

Í tilkynningunni segir að Hótel Hengill hafi verið reist sem starfsmannahús á Nesjavöllum en minna hús hafi tekið við því hlutverki. Eignin hafi verið í leigu til hótelreksturs í nokkur ár. Hæsta tilboði í eignina hafi verið tekið og nemi það 210 milljónum króna.

Að Rafstöðvarvegi 9 rak OR minjasafn þar til síðastliðið haust að starfseminni var hætt. Var hæsta tilboði í hana tekið. Það er 100 milljónir króna. Tilboðið var með þeim fyrirvara, sem fallist var á, að skipulagsyfirvöld setji sig ekki upp á móti því að kaupandinn nýti húsið fyrir skrifstofur í framtíðinni.

Þá segir að stjórn OR hafi samþykkt að selja eignirnar í apríl síðastliðnum og söluferlið hafi verið samkvæmt reglum sem stjórn OR hafi sett þar að lútandi. Á fundi stjórnar 26. september hafi verið ákveðið að ganga að hæstu tilboðum. Unnið hafi verið að frágangi og undirritun skjala síðan.

„Sala eignanna er liður í þeirri aðgerðaáætlun sem Orkuveita Reykjavíkur og eigendur fyrirtækisins vinna eftir vegna fjárhagsvanda fyrirtækisins. Framvinda hennar er á áætlun eins og fram kemur í tilkynningu OR til kauphallar 3. október sl.

Nú er opið fyrir tilboð í eina eign OR. Það er Perlan í Öskjuhlíð – ferðaþjónustu- og veitingarými sem stendur ofan á sex tönkum, sem ekki teljast til hússins og munu áfram þjóna hitaveitunni á höfuðborgarsvæðinu. Tilboðsfrestur í Perluna er til 17. október og er það fasteignasalan Miklaborg, sem hefur umsjón með sölunni,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK