Líkur á að samningum verði sagt upp

Verulegar líkur eru á að heimild til uppsagnar kjarasamninga muni skapast í janúar 2013, að sögn Vilmundar Jósefssonar, formanns Samtaka atvinnulífsins á aðalfundi í dag.

Kjarasamningarnir eru bundnir forsendum um þróun kaupmáttar, verðbólgu, gengis krónunnar og um efndir á yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, að sögn Vilmundar.

„Samningsaðilar voru sammála um að ekki kæmi til uppsagnar samninga í janúar síðastliðnum þrátt fyrir að verulega skorti á að yfirlýsing ríkisstjórnarinnar hafi verið efnd.

Í janúar næstkomandi stefnir í að gengi krónunnar verði mun lægra en forsendur samninganna gera ráð fyrir. Launakostnaður hefur aukist verulega meira en samningarnir fólu í sér þar sem launaskrið hefur mælst um 3% síðastliðna 12 mánuði.

Einnig ríkir óvissa um þróun kaupmáttar þar sem verðbólga virðist ætla verða meiri en gert var ráð fyrir. Vandi atvinnulífsins er sá að gert var ráð fyrir að aukin umsvif í hagkerfinu myndu létta undir með fyrirtækjunum að standa undir launahækkunum.

Enn eru fjárfestingar í algeru lágmarki og ekki sjáanlegar neinar verulegar breytingar þar á. Það eru því verulegar líkur á því að heimild til uppsagnar kjarasamninga muni skapast í janúar 2013. Aðstæður bjóða hins vegar alls ekki upp á svigrúm til frekari launahækkana en þeirra sem um var samið fyrir nær ári síðan,“ segir Vilmundur.

Mun leiða til fjölda gjaldþrota í sjávarútvegi

Hann segir samtökin hafa haft frumkvæði að skipuð var svokölluð endurskoðunarnefnd um sjávarútveg með víðtækri þátttöku hagsmunaaðila á árinu 2009.

„Hún skilaði áliti rúmu ári síðar með samkomulagi. Þá hafði ríkisstjórnin sögulegt tækifæri til þess að skapa víðtæka sátt um framtíðarskipan sjávarútvegsmála. En það er kunnugra en frá þurfi að segja að niðurstaða nefndarinnar var að engu höfð. Þess í stað hefur málið verið unnið í myrkum afkimum stjórnarráðsins.

Niðurstaðan er sú að lagt er til að breyta grundvallarforsendum í rekstri fyrirtækjanna með því annars vegar að afnema frjálst framsal aflahlutdeildar og auka pólitíska úthlutun aflaheimilda og hins vegar með ofurskattlagningu sem leiða mun til fjöldagjaldþrota í greininni. Þessi áform munu færa umhverfi íslensks sjávarútvegs áratugi aftur í tíma og um þau getur aldrei orðið sátt – hvorki við greinina sjálfa né annað atvinnulíf í landinu,“ segir Vilmundur. 

Peningastefnan frá 2001 endaði með hörmungum

Að sögn Vilmundar er peningastefnan, sem Ísland tók upp 2001, meginástæða þess að tekin hafa verið upp að nýju gjaldeyrishöft en peningastefnan endaði með hörmungum eins og kunnugt er, að sögn Vilmundar.

„Að nafninu til stendur til að afnema höftin á næsta ári þótt hvorki ríkisstjórnin né Seðlabankinn hafi úrræði né djörfung til að það gangi eftir. Engar líkur eru til annars en að gjaldeyrishöftin verði framlengd að nýju kannski til tveggja ára eða svo. Og þannig koll af kolli.

Á hverjum tíma sjá menn skýrt fyrir sér sársaukafullar afleiðingar afnáms haftanna til skamms tíma. Tjón til lengri tíma er hulið enda felst það í því sem ekki gerist, glötuðum tækifærum til hagvaxtar, minni verðmætasköpun en ella, erlendum fjárfestingum sem verður ekki af, innlendum vaxtarsprotum sem visna og töpuðum störfum. Höftin halda gengi krónunnar samfellt lágu og innilokuðum krónum erlendra aðila fjölgar stöðugt með verðbótum, vöxtum og vaxtavöxtum.

Vantrú á krónuna mun halda áfram að aukast og þrýstingurinn heldur áfram í vítahring. Vandinn mun stöðugt aukast. Höftin verða hert enn frekar eins og fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, Árni Páll Árnason, hefur lýst svo ágætlega í nýlegum blaðagreinum,“ segir Vilmundur.

Endurkjörinn formaður

Vilmundur var endurkjörinn formaður Samtaka atvinnulífsins fyrir starfsárið 2012-2013. Rafrænni kosningu meðal aðildarfyrirtækja SA lauk á hádegi í dag og var tilkynnt um kjör Vilmundar á aðalfundi SA sem nú stendur yfir. Vilmundur hlaut 92,6% greiddra atkvæða.

Vilmundur Jósefsson hefur verið formaður SA frá árinu 2009 en áður var hann varaformaður samtakanna um þriggja ára skeið. Vilmundur hefur setið í stjórn SA um árabil en hann var formaður Samtaka iðnaðarins árin 2000-2006 og var stjórnarmaður í SI 1994-2000. Vilmundur er viðskiptafræðingur frá H.Í.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK