Landsbankinn hagnaðist um 7,7 milljarða

Landsbanki Íslands.
Landsbanki Íslands. mbl.is/Kristinn

Landsbankinn hagnaðist um 7,7 milljarða eftir skatta á fyrsta ársfjórðungi 2012. Bankinn segir í tilkynningu, að arðsemi eigin fjár hafi verið 15,2%. Til samanburðar hafi hagnaður á sama tíma á síðasta ári numið 12,7 milljörðum króna og arðsemi eigin fjár hafi þá verið 26,7%.

Eiginfjárhlutfall (CAD) Landsbankans er nú 22,1% en var 20,4% fyrir ári. Eiginfjárhlutfall Landsbankans  er því vel umfram það 16% lágmark sem Fjármálaeftirlitið gerir kröfu um.

Helstu stærðir úr rekstri og efnahag í lok 1. ársfjórðungs 2012:

  • Arðsemi eigin fjár var 15,2%.
  • Hagnaður eftir skatta nam 7,7 milljörðum króna.
  • Vaxtamunur af meðalstöðu heildareigna var 3,0%.
  • Eigið fé bankans var tæpir 208 milljarðar króna.
  • Eiginfjárhlutfall (CAD hlutfall) var 22,1%
  • Heildareignir bankans námu 1,174 milljörðum króna.
  • Skattar nema 2,2 milljörðum króna.
  • Hagnaður af gangvirðisbreytingum á hlutabréfum og skuldabréfum í eigu bankans nam 3,7 milljörðum króna.
  • Rekstrarkostnaður bankans nam 5,6 milljörðum króna.

Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, segir í tilkynningu að rekstur bankans sé traustur en ládeyða einkenni efnahagslífið sem setji bankastarfsemi skorður. Hagnaður bankans hafi því eðlilega minnkað en að öðru leyti sé reksturinn á áætlun.

„Óvissa í stórum og mikilvægum málaflokkum einkennir ástandið á Íslandi og veldur því að fjárfesting er með minnsta móti og lítil eftirspurn eftir lánsfé. Þetta finnum við glöggt í Landsbankanum og ekki bætir úr skák að enn og aftur er risin óvissa um endurútreikning ólögmætra lána, sem tefur endurskipulagningu skulda bæði heimila og fyrirtækja. Mikilvægt er að sem fyrst verði hægt að greiða úr ágreiningsefnum vegna dóms Hæstaréttar í febrúar  en vonir standa til að hægt verði að hraða fordæmisgefandi málum í gegnum dómskerfið,“ segir bankastjórinn.

„Aukin hagkvæmni og skilvirkni eru meðal helstu markmiða Landsbankans. Það er fyrirsjáanlegt að krafa um hagræðingu verður æ háværari, m.a. í ljósi síhækkandi skatta á fjármálafyrirtæki. Stóra verkefnið hjá okkur að undanförnu hefur verið að fást við endurskipulagningu skulda viðskiptavina. Mikill árangur hefur náðst á því sviði en nú munu sjónir okkar í vaxandi mæli beinast að því að gera bankann hagkvæmari,“ segir Steinþór enn fremur.

Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans.
Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans.
mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir