Spænsk hlutabréf ekki lægri í níu ár

Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, hefur í dag reynt að róa ...
Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, hefur í dag reynt að róa fjárfesta. JUAN MEDINA

Hlutabréfavísitala á Spáni lækkaði um 2,17% í dag en hún hefur ekki verið lægri í níu ár. Ástæðan er ótti fjárfesta við afleiðingar hruns Bankia, fjórða stærsta banka Spánar.

Stjórnendur Bankia óskuðu á föstudaginn eftir 19 milljarða evra aðstoð frá spænska ríkinu. Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, hefur um helgina reynt að róa markaðinn. Hann segir að aðstoð ríkisins við Bankia muni ekki hafa áhrif á getu ríkissjóðs Spánar til að standa við skuldbindingar sínar.

Fjárfestar eru hins vegar órólegir. Þeir spyrja hvar spænska ríkið ætli að fá peninga að láni til að setja inn í bankakerfið. Einnig óttast margir að fleiri bankar muni á næstunni leita á náðir ríkissjóðs með aðstoð.

Bankia varð til í desember 2010 þegar sjö sparisjóðir sameinuðust. Hlutabréf í bankanum hafa fallið hratt síðustu daga og fyrir helgi voru hlutabréfin afskráð í kauphöllinni. Á föstudaginn lýstu stjórnendur hans því yfir að þeir þyrftu að fá aðstoð frá spænska ríkinu til að geta staðið við skuldbindingar sínar.

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir