Fundað um SpKef í fyrramálið

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis fundar í fyrramálið um málefni SpKef, að beiðni þriggja þingmanna nefndarinnar. Á fundinn mæta fulltrúar frá fjármálaráðuneyti og Fjármálaeftirliti.

Valgerður Bjarnadóttir, formaður nefndarinnar, tók fram á Alþingi í morgun að ekki hefði áður verið farið fram á að málið yrði tekið upp í nefndinni og þingmenn stjórnarmeirihlutans hefðu ekki reynt að seinka málinu. Taldi hún nauðsynlegt að taka þetta fram vegna frétta í fjölmiðlum um að þingmenn úr stjórnarliðinu í nefndinni hefðu ekki sýnt því áhuga að taka málið upp.

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, fagnaði því að fundur verður haldinn og sagðist vona að nú fengist niðurstaða í málið. Hann hefði lagt fram fjölmargar fyrirspurnir og ekki fengið svar.

Þá sé enn einn vinkill kominn á málið því svo virðist sem á þeim stutta tíma sem SpKef starfaði hafi bankinn safnað miklum skuldum við Seðlabanka Íslands. Hann segir að erfitt hafi verið að sinna eftirlitshlutverki þingsins í þessu máli, en nú vonist hann til þess að nefndin fari á fullt í málið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir