Fyrirtæki skortir leiðbeiningar

Stór fyrirtæki og þau sem hugsanlega eru í markaðsráðandi stöðu skortir leiðbeiningar frá Samkeppniseftirlitinu um hvaða takmarkanir þeim eru settar og hvað þeim ber að varast. Auk þess er þörf á að hækka fjárhæðamörk sem gera fyrirtæki tilkynningarskyld til eftirlitsins vegna samruna og takmörkuð verði nýleg heimild samkeppnisyfirvalda til breytinga á skipulagi fyrirtækja þótt þau hafi ekki gerst brotleg við lög.

Þetta er meðal atriða sem koma fram í nýrri skýrslu Samtaka atvinnulífsins um samkeppnislögin og framkvæmd þeirra, en þar er einnig sagt frá því að Samkeppniseftirlitið er ein þeirra eftirlitsstofnana sem félagsmenn samtakanna eru ósáttastir við.

Á þéttsetnum fundi samtakanna í morgun þar sem skýrslan var kynnt kom fram í máli Péturs Reimarssonar, forstöðumanns hjá Samtökum atvinnulífsins, að forsvarsmenn fyrirtækja væru almennt ósáttir við Samkeppnisyfirlitið og væru í mörgum tilfellum ekki til í að fara á fund eftirlitsins vegna þeirra móttakna sem þeir fengju þar og langs málsmeðferðartíma.

Pétur benti á að í niðurstöðum skýrslunnar væri komið inn á að áfrýjunarnefnd samkeppnismála væri orðin millistig þar sem metnaður úrskurðaraðila gæti fallið niður vegna þeirrar stöðu að hægt væri að vísa málum áfram til dómstóla. Það gerði nefndina óþarfa og að Samkeppniseftirlitið ætti ekki að hafa heimild til að vísa málum þangað.

Einnig nefndi hann að heimild samkeppnisyfirvalda til að leggja hald á gögn í rannsóknum væri mun víðari hérlendis en í nágrannalöndum, þar sem meginreglan væri að aðeins yrðu gerð afrit af gögnum, en að búnaður væri ekki gerður upptækur meðan á rannsókn stæði. Pétur talaði einnig fyrir meira samstarfi á þessum vettvangi og sagði að sektir og lengd fangelsisdóma væru ekki góður mælikvarði á árangur, heldur bætt samkeppni sem ná mætti með auknum samskiptum milli eftirlits og atvinnulífs. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK