Skuldum 90% meira en áður var talið

Seðlabanki Íslands
Seðlabanki Íslands mbl.is/Ómar

Skuldir þjóðabúsins eru mun meiri en áður hefur verið haldið fram af Seðlabankanum og öll áform um afnám gjaldeyrishaftanna verða ótrúverðug uns heilstætt mat hefur verið gert á skuldastöðunni. Þetta kemur fram í markaðspunktum greiningardeildar Arion banka í dag. Segir þar að eftir að innlánsstofnanir í slitameðferð hafi í september tekið út 262 milljarða af reikningum Seðlabankans og tugi milljarða mánuðina þar á undan. Þar sem þessar upphæðir hafi verið flokkaðar sem innlend eign þýði þetta að hrein staða þjóðarbúsins verði mun slakari en áður var talið.

Í tölum Seðlabankans um hreina stöðu við útlönd án innlánsstofnana í slitameðferð fyrir 2. ársfjórðung 2012 kemur fram að hún sé neikvæð um 1056 milljarða, eða 65% af landsframleiðslunni. Það sést þó ekki að í tölunum sé um 328 milljarða gjaldeyrisinnlán innlánsstofnananna sem flokkast ekki sem erlend skuldbinding þar sem innlánsstofnanirnar eru flokkaðar sem innlendir lögaðilar.

Með úttektunum þessara aðila nema heildarinnlán þeirra nú 21 milljarði og hafa því í heildina lækkað um 300 milljarða frá lokum 2. ársfjórðungs, og sjást merki þess í samsvarandi lækkun gjaldeyrisforða Seðlabankans.

Þar sem innlánsstofnanirnar eru flokkaðar sem innlendur aðili hafa innlagnir þeirra á gjaldeyri í Seðlabankann ekki talist til erlendra eigna þeirra (þ.e. til erlendra skuldbindinga Seðlabankans). Þær koma því ekki fram þegar hrein staða við útlönd án innlánsstofnana er sýnd í opinberum hagtölum

Með öðrum orðum kemur hreyfingin þannig fram í efnahagsreikningi Seðlabankans að á eignahliðinni dregst gjaldeyrisforðinn saman, en hann er flokkaður sem erlend eign Seðlabankans. Á skuldahliðinni dragast innlán innlánsstofnananna saman, en þær eru flokkaðar sem innlend skuld Seðlabankans. Þar með verða nettó áhrifin á erlenda stöðu þjóðarbúsins neikvæð.

Greiningardeildin segir að innstæður innlánsstofnana á gjaldeyri í Seðlabankanum séu því fyrst nú að koma í bakið á okkur þar sem þær hafa um nokkurt skeið fegrað hreina stöðu við útlönd án innlánsstofnana í slitameðferð. Nú þegar þessir fjármunir hafa verið teknir út úr Seðlabankanum mun hrein staða við útlönd án innlánsstofnana í slitameðferð væntanlega versna um ríflega 300 milljarða við næstu birtingu og verða um 84% af landsframleiðslu ársins 2011, í stað 65 eins og áður hafði verið talið.

Samkvæmt útreikningum greiningardeildarinnar mun hrein erlend staða þjóðarbúsins fara úr 65% af landsframleiðslu upp í 123% ef mat Seðlabankans á áhrifum uppgjörs innlánsstofnananna er lagt til grundvallar eða úr 1.060 milljörðum króna í ríflega 2.000 milljarða þegar greitt hefur verið til erlendra kröfuhafa úr þrotabúum gömlu bankanna.

Segir þar jafnframt að „skuldastaðan er umtalsvert verri en áður var talið, og þar með greiðsluhæfi þjóðarinnar. Því blasir við að krónan mun eiga erfitt uppdráttar með þessa miklu skuldsetningu hangandi yfir sér. Ekki þarf að fjölyrða um að plön um afnám gjaldeyrishafta verða ótrúverðug uns velt hefur verið við hverjum steini í slíku mati.“

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK