Einstaklingar stærstir í íbúðakaupum

Viðskipti á íbúðarhúsnæði eru ennþá að mestu milli einstaklinga
Viðskipti á íbúðarhúsnæði eru ennþá að mestu milli einstaklinga mbl.is/Golli

Viðskipti á íbúðarhúsnæði eru ennþá að mestu milli einstaklinga og sveiflur í kaupum og sölum fyrirtækja á íbúðarhúsnæði hafa ekki verið miklar síðustu 6 árin. Þetta kemur fram í morgunkorni greiningardeildar Íslandsbanka, en nokkur umræða hefur verið upp á síðkastið þess efnis að fasteignasjóðir séu að kaupa mikið af eignum.

Á þriðja ársfjórðungi þessa árs voru 77% viðskipta með íbúðarhúsnæði á  höfuðborgarsvæðinu á milli einstaklinga, eða samtals 1.017 kaupsamningar af þeim 1.321 kaupsamningum sem gerðir voru á tímabilinu í heildina. 15% samninganna, eða samtals 198 samningar, voru þess eðlis að fyrirtæki seldi einstaklingi íbúð og 5% samninganna voru á þá leið að einstaklingur seldi fyrirtæki íbúð eða 66 samningar á tímabilinu. Þetta segir greiningardeildin og hefur eftir upplýsingum sem Þjóðskrá Íslands birti í gær, en slík sundurliðun hefur ekki áður verið birt.

Í tilkynningu Þjóðskrár segir að birtingin sé gerð til að svara því hvort að eðli markaðarins hafi breyst á undanförnum árum. Kaupendum og seljendum er skipt upp eftir því hvort um fyrirtæki eða einstakling sé að ræða, og gögnin sett fram eftir ársfjórðungum til að minnka sveiflur af völdum mismikilla viðskipta í einstökum mánuðum.  Gögnin ná aftur til 2. ársfjórðungs 2006 og má af þeim sjá að eðli markaðarins hefur ekki mikið breyst  á þessu tímabili.

Þegar 3. ársfjórðung 2006 er borinn saman við sama tímabil núna í ár kemur í ljós að 76% viðskiptanna árið 2006 voru á milli einstaklinga en í ár voru 77% viðskiptanna þess eðlis. Þá voru 12% viðskiptanna árið 2006 þess eðlis að fyrirtæki seldi einstaklingi samanborið við 15% á þriðja ársfjórðungi nú. Hlutdeild einstaklinga á þessum markaði hefur verið nokkuð stöðug á því tímabili sem gögnin ná til eða á bilinu 74%- 81%.

Meiri sveiflur eru í tölunum um viðskipti á íbúðamarkaði sem eru þess eðlis að fyrirtæki selji einstaklingi íbúð en hlutfall viðskipta af því tagi hefur á tímabilinu sveiflast frá 12-25%. Hæst varð þetta hlutfall á fyrsta ársfjórðungi 2010 þegar fjórðungur allra viðskipta á íbúðamarkaði flokkaðist þar undir. Síðan þá hefur þetta hlutfall lækkað og var 15% á þriðja fjórðungi þessa árs.

Greiningardeildin segir að þessar tölur sýni að eðli íbúðamarkaðarins hafi ekki breyst mikið á því tímabili sem tölurnar ná til. Eftir sem áður á langstærstur hluti viðskipta á íbúðamarkaði sér stað á milli tveggja einstaklinga og hlutfall fyrirtækja á þessum markaði hefur haldist nokkuð stöðugt að frátöldum 1. fjórðungi ársins 2010 þegar það var óvenju hátt.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK