Gjörðir Breta komu þeim í koll

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri Hörður Ægisson

Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir að niðurstaða Icesave-málsins sé mjög jákvæð og að hún búi til grundvöll fyrir bætt lánshæfismat. Hann segir að gjörðir Breta gagnvart Íslendingum hafi mögulega skemmt fyrir þeim í málinu, en dómurinn tók tillit til þeirrar stöðu að Íslendingar gátu ekki greitt trygginguna á þeim tímapunkti. Már telur þó stærstu fréttirnar vera staðfestingu dómsins á gölluðu regluverki Evrópusambandsins um starfsemi banka yfir landamæri og á innistæðutryggingakerfinu. 

„Þetta er að mörgu leyti merk niðurstaða og jákvæð fyrir Ísland í ljósi þeirrar stöðu sem það hefur verið í,“ segir Már í samtali við mbl.is. Hann telur hina fjárhagslegu áhættu vegna málsins þó alltaf hafa minnkað vegna þess hve miklar endurheimtur eru úr þrotabúunum upp í kröfurnar. Afleiðingar dómsins hefðu því ekki orðið mjög miklar þótt hann hefði fallið á annan veg.

Gjörðir Breta komu þeim í koll

Bretar gengu hart fram gegn Íslendingum í málinu og Már segir að þær aðgerðir virðist hafa snúist upp í andhverfu sína hjá Bretum. „Mér finnst athyglisvert að vísað sé til erfiðleika Íslands, þótt Íslendingar hefðu viljað greiða þessar innistæðutryggingar, þá var það ekki hægt á þessum tímapunkti. Það sem meira er, þá virðist mér á einum stað vera vísað til þess að aðgerðir breskra stjórnvalda hafi gert þeim það enn erfiðara. Þannig að þarna er komin upp sú staða að það sem bresk stjórnvöld gerðu er að koma þeim í koll í þessari dómsniðurstöðu að nokkru leyti.“

Aðspurður um áhrif á lánshæfismat Íslands segir Már að matsfyrirtækin hafi væntanlega verið búin að setja upp ákveðið öryggisálag á lánshæfi Íslands. Dómur sem væri gegn Íslandi hefði því ekki haft mikil áhrif á lánshæfismatið. 

Í framhaldi dómsins telur Már líklegt að niðurstaðan muni búa til viðspyrnu fyrir hækkun. Hann gerir þó ekki endilega ráð fyrir hærri einkunn strax, en að horfum verði breytt úr neikvæðum í stöðugar, eða úr stöðugum í jákvæðar.

Gallað regluverk Evrópusambandsins

Már segir að þetta mál snúist í dag meira um gallað regluverk Evrópusambandsins en afleiðingar hérlendis. „Hinar stóru afleiðingar í þessum dómi snúa kannski ekki svo mikið að Íslandi úr þessu, heldur Evrópusambandinu og regluverkinu.“

Hann segir að hvernig sem niðurstaðan hafi orðið hefði það þýtt tap fyrir Evrópusambandið. Þetta muni einnig væntanlega ýta enn undir nauðsynlegar breytingar á öllu regluverki sem kemur að innistæðutryggingum og starfsemi banka yfir landamæri sambandsins. 

„Þeim hefur verið það ljóst að það er gallað og þess vegna eru tillögur uppi um bankasamband og sameiginlegar innistæðutryggingar eiga að vera hluti af því, en eru ekki komnar núna“ segir Már og bætir við að það sé „heilmikið af bankainnistæðum af þessu tagi milli landanna núna. Það verður spennandi að sjá hvað verður um það, hvort það verði talið að þær séu tryggðar og hvernig það er. Jafnvel hvort það muni hafa áhrif á stöðugleika þessara innistæðna á næstu dögum.“

Bæði sigur og tap slæm niðurstaða

Hefði Ísland tapað málinu segir Már að það hefði getað haft mjög mikil áhrif á mörg Evrópulönd „Ef þetta hefði farið Íslandi í óhag, sérstaklega í ýtrustu mynd, þá var fjöldi ríkja í Evrópu sem stóð frammi fyrir því að þarna væri óbein ríkisábyrgð sem hefði áhrif á þeirra lánshæfismat.“ Hann segir að sigurinn geri málið ekki þægilegra fyrir evrópsk yfirvöld. „Ef þetta hefði farið í hina áttina, eins og nú er orðið, þá gat það líka haft neikvæðar afleiðingar fyrir Evrópusambandið og þetta kerfi. Það gæti grafið undan stöðugleika innistæðna yfir landamæri.“

Hann segir að mjög spennandi verði að sjá hver verði viðbrögðin við þessu á mörkuðum, í einstökum löndum Evrópusambandsins og á vegum Evrópusambandsins sjálfs. Þetta undirstriki væntanlega enn frekar nauðsyn þess að breyta kerfinu og sýnir „hversu miklir gallar voru á kerfinu og eru ennþá,“ segir Már.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK