„Hryggjarstykkið í atvinnulífi á Djúpavogi“

Um einn af hverjum sjö sem er yfir 18 ára …
Um einn af hverjum sjö sem er yfir 18 ára á Djúpavogi vinnur hjá Vísi. Forsvarsmenn fyrirtækisins ætla að flytja vinnsluna til Grindavíkur. mbl.is/Andrés Skúlason

Einn af hverjum sjö sem eru eldri en 18 ára á Djúpavogi starfar fyrir Vísi, en félagið tilkynnti í dag áform sín um að flytja alla vinnslu félagsins til Grindavíkur. Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri Djúpavogshrepps, segir í samtali við mbl.is að Vísir hafi um árabil verið hryggjarstykkið í atvinnulífi á Djúpavogi, en hann vonist til þess að um „tímabundið bakslag sé að ræða“.

Gauti undirstrikar að ekki hafi komið til uppsagna, heldur séu þetta enn áform félagsins sem ekki séu komin til framkvæmda. Þá tekur hann fram að áfram verði starfsemi í vinnslu Vísis á Djúpavogi næstu mánuðina hið minnsta. Samkvæmt tölum Hagstofunnar búa um 470 á Djúpavogi, en þar af eru 344 einstaklingar 18 ára og eldri. Tæplega 50 manns vinna hjá Vísi á staðnum.

Í tilkynningu frá Vísi fyrr í dag kom fram að samstarf við Fiskeldi Austurlands væri í skoðun, en félagið hefur leyfi fyrir 8.000 tonna fiskeldi í Berufirði. Gauti segir að núverandi hugmyndir gangi út á að 20 til 25 af þeim 50 starfsmönnum sem vinna hjá Vísi geti komið að slátrun og pökkun frá fiskeldinu. Þá séu einnig áform fiskeldisins stærri í sniðum og gangi þau öll eftir gæti vinnslan orðið sú sama, ef ekki stærri, innan skamms. „Það er ljóst að það gæti orðið tímabundið bakslag,“ segir Gauti og bætir við: „Við höfum áður mætt mótlæti og þá er ekkert annað að gera en standa í lappirnar.“

Gauti segir að fundað verði með stjórnendum fiskeldisins og Vísis eftir helgi og þar muni mál skýrast nánar. Hann segir ljóst að farið verði yfir þessi áform á fundinum og leitað leiða til þess að draga úr áhrifum þeirra. 

Frá Djúpavogi.
Frá Djúpavogi. mbl.is/Gúna
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK