„Þetta er áfall“

Fréttir um mögulegan flutning vinnslu Vísis til Grindavíkur eru áfall …
Fréttir um mögulegan flutning vinnslu Vísis til Grindavíkur eru áfall fyrir Þingeyri að sögn Daníels Jakobssonar, bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar. Kristinn Benediktsson

Hugsanlegar skipulagsbreytingar útgerðafélagsins Vísis og flutningur á fiskvinnslunni á Þingeyri til Grindavíkur snertir beint fjórðung fólks á vinnufærum aldri á Þingeyri. Tæplega fimmtíu manns vinna hjá Vísi á Þingeyri, en samtals búa um 320 manns í bænum og sveitinni í kring. Þar af eru 190 manns á aldrinum 18 til 67 ára. Daníel Jakobsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar segir þessar fréttir vera áfall fyrir bæinn.

Ósáttur við Vísis-menn

Daníel heyrði fyrst um málið frá blaðamanni mbl.is, en hann segist hafa verið ósáttur með að stjórnendur Vísis hafi ekki fyrst rætt við bæjaryfirvöld um mögulega lausn á málinu. „Við erum nýbúin að fara gegnum svipaða hluti á Flateyri og Suðureyri og við hefðum fyrst átt að fá að láta reyna á það,“ segir Daníel.

Nú er einn mánuður sem bærinn hefur í umþóttunartíma, að sögn Daníels og sá tími verður nýttur til að ræða málin við hlutaðeigandi. Eftir þann tíma gæti komið til uppsagna og aðlögunar að flutningi. Hann segir að þegar hafi verið rætt við byggðarstofnun.

Verkefnið að stoppa breytingar eða finna ný störf

Aðspurður hvernig þetta gæti komið niður á bænum segir Daníel stöðuna erfiða. „Þetta er áfall og við þurfum að vinna úr þessu, því miður með reynslu af þessum málum.“ Hann segir verkefnið núna að finna leiðir til að koma í veg fyrir þessar breytingar eða að finna aðra atvinnumöguleika.

Í tilkynningu frá Vísi sagðist félagið ætla að aðstoða við að finna ný störf eða skapa atvinnu á þeim stöðum sem félagið væri að fara frá. Á bæði Húsavík og á Djúpavogi var tilkynnt verkefni sem unnið væri að, en ekkert var gefið upp um nein áform á Þingeyri. Aðspurður hvort hann sjái einhver verkefni fyrir sér í dag sem hægt væri að vinna að segist Daníel ekki sjá nein verkefni fyrir sér í fljótheitum. Slíkt verði þó skoðað vel á næstu dögum.

Frétt mbl.is: Öll starfsemi Vísis til Grindavíkur

Frétt mbl.is: Hryggjarstykkið í atvinnulífinu

Daníel Jakobsson., bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ.
Daníel Jakobsson., bæjarstjóri í Ísafjarðarbæ.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert