Skuldauppgjöri Björgólfs lokið

Björgólfur Thor Björgólfsson.
Björgólfur Thor Björgólfsson. mbl.is/Kristinn

Skuldauppgjöri Björgólfs Thors Björgólfssonar og Novators, fjárfestingafélags hans, er nú lokið og hefur hann gert upp við alla innlenda og erlenda lánadrottna. Heildarfjárhæðin sem greidd er til lánadrottnanna er 1.200 milljarðar króna. Þar af hafa íslenskir bankar og dótturfélög þeirra fengið greidda rúma 100 milljarða króna.

Tilkynnt var um samkomulag Björgólfs við lánadrottnana árið 2010 og búist við að það tæki um fimm til sex ár að selja eignir og klára uppgjör. Töluvert af persónulegum eignum Björgólfs runnu til lánardrottna um leið og gengið var frá samkomulaginu, þar á meðal húseign í Reykjavík, sumarhús við Þingvelli, snekkja og einkaþota. Hafa þessar eignir nú verið seldar og andvirði ráðstafað til kröfuhafa.

Jafnframt fólst í samkomulaginu að Björgólfur Thor yrði áfram hluthafi í félögum á borð við Actavis, Play, CCP og Verne Holding og þær eignir væru til tryggingar á eftirstandandi skuldum. Kæmi til sölu þessara eigna myndi arðurinn af þessum eignarhlutum og verðmæti renna til uppgjörs skuldanna.

Slitastjórn Landsbankans stærsti íslenski viðsemjandinn

Stærsti hluti uppgjörs Björgólfs var við erlendu lánadrottnana Deutsche Bank, Standard Bank, Barclays og Fortis en kröfur íslensku bankanna námu um 10% af heildaruppgjörinu. 

Stærsti hluti greiðslnanna til íslenskra lánadrottna var greiddur til slitastjórnar Landsbankans og Landsbankans í Lúxemborg, eða um 85 milljarðar króna af þeim 100 milljörðum sem hann greiddi til íslenskra félaga.

Í tilkynningu frá Novator segir að í Rannsóknarskýrslu Alþingis hafi Björgólfur verið tilgreindur sérstaklega sem stærsti skuldari Landsbankans í Lúxemborg, en að ekki hafi verið tekið tillit til þess að hann væri jafnframt stærsti innistæðueingandinn í bankanum og raunveruleg skuld hans því lægri.

Með tilkynningunni fylgir yfirlýsing frá Björgólfi. 

„Skuldauppgjöri mínu og fjárfestingarfélags míns við alla lánardrottna er nú lokið, mun fyrr en áætlað var. Ég var alla tíð ákveðinn í að ganga frá uppgjörinu með sóma. Til að svo mætti vera þurfti mikla og þrotlausa vinnu til að hámarka virði þeirra eigna sem lágu til grundvallar uppgjörinu. Þegar tilkynnt var um uppgjör mitt í júlí 2010 kom fram að skuldir myndu verða gerðar upp að fullu og ekki gefnar eftir. Við það hef ég staðið.“

„Lánuðu of fáum of mikið“

„Ég hef margoft sagt, að skuldir verða ekki gerðar upp nema menn eigin raunverulegar eignir til að greiða þær með. Vissulega voru skuldir mínar miklar við hrun, en að sama skapi voru inneignir miklar og tryggingar öruggar. Íslensku bankarnir lánuðu sannarlega of fáum of mikið. Verra var, að stór hluti þeirra sem frekastir voru til lánanna átti aldrei raunverulegar eignir, heldur aðeins sýndareignir á pappír, sem þeir eignuðust í sýndarviðskiptum við félaga sína. Þeir hafa ekki reynst borgunarmenn fyrir skuldum sínum og skyldi enginn undra.“

Segir vinnubrögðin gagnsærri en hér hafi tíðkast

„Um 100 manna her lögfræðinga, endurskoðenda og annarra sérfræðinga vann að skuldasamkomulaginu. Ég lagði allar mínar eignir undir. Þá fengu lánadrottnar aðgang að öllum bankareikningum mínum og allra félaga minna nokkur ár aftur í tímann og gátu þannig gengið úr skugga um að engar eignir voru undanskyldar. Sú rannsóknarvinna erlendra sérfræðinga stóð í tæpt eitt og hálft ár og lauk í apríl 2010. Ég fullyrði að svo gagnsæ vinnubrögð hafa ekki verið viðhöfð í uppgjörsmálum neinna annarra í íslenska bankakerfinu. “

„Ljóst er, að kröfuhafar hefðu aldrei náð fullum endurheimtum ef gengið hefði verið að eignunum og þær seldar á brunaútsölu, í stað þess að semja um uppgjör. Allir lánardrottnar samþykktu að setjast að samningaborði og sú ákvörðun reyndist rétt fyrir alla þeim sem að samningum komu,“ segir Björgólfur. 

hag / Haraldur Guðjónsson
AFP
Deutsche Bank
Deutsche Bank AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK