Framkvæmdastjóri Mílu átti ekki kauprétt

Jón Ríkharð Kristjánsson, framkvæmdastjóri Mílu.
Jón Ríkharð Kristjánsson, framkvæmdastjóri Mílu.

Síminn segir að Jón Ríkharð Kristjánsson, framkvæmdastjóri Mílu, sem er dótturfélag Símans, eigi ekki kauprétt að hlutum í fyrirtækinu. Hins vegar kemur fram í Fréttablaðinu að Jón hafi fengið að kaupa  hlut í fyrirtækinu. Síminn segir að ranglega hafi verið tilgreint í lýsingu að Jón ætti kauprétt að 714.853 hlutum, eins og lykilstjórnendur Símans.

Í tilkynningu sem var send til Kauphallar Íslands rétt fyrir kl. 21 í gærkvöldi segir orðrétt:

„Í sátt sem gerð var við Samkeppniseftirlitið er ákvæði sem kveður á um að séu laun og önnur starfskjör starfsmanna Mílu ehf. tengd við afkomu skuli tengingin aðeins miðast við afkomu og árangur Mílu ehf. Samkvæmt kaupréttaráætlun sem samþykkt var á hluthafafundi Símans hf. 8. september 2015 nær hún ekki til starfsmanna Mílu ehf. Hvorki framkvæmdastjóri né starfsmenn Mílu ehf. hafa því kauprétt að hlutum í Símanum hf., líkt og fram kemur í kafla 4.4.3 í lýsingunni. Í töflu í sama kafla er hins vegar ranglega tilgreint að framkvæmdastjóri Mílu ehf., Jón Ríkharð Kristjánsson hafi kauprétt að 714.853 hlutum. Framkvæmdastjóri Mílu ehf. á því ekki kauprétt að hlutum í Símanum hf.“

Fram kemur í Fréttablaðinu í dag, að Jón hafi keypt hlut í Símanum fyrir tæplega tíu milljónir króna í ágúst á genginu 2,5 krónur á hlut. Það sé um þriðjungi lægra verð en raunin varð í almennu hlutafjárútboði sem lauk í síðustu viku.

Haft er eftir Jóni, að Orri Hauksson, forstjóri Símans, hafi sagt að sér persónulega stæði til boða að kaupa hlut í Símanum í sumar sem hann hafi þegið.

Samkvæmt lýsingunni áttu Orri Hauksson, Óskar Hauksson, Birna Ósk Einarsdóttir, Magnús Ragnarsson, Eric Figueras, Jón Ríkharð Kristjánsson og Valgerður H. Skúladóttir kauprétt að 714.853 hlutum í Símanum hf.

Skráningarlýsing

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK