Árni Harðar með meirihluta í hópmálsókn

Björgólfur Thor Björgólfsson
Björgólfur Thor Björgólfsson

Árni Harðarson, stjórnarmaður og lögmaður Alvogen, á rúm sextíu prósent þeirra hlutabréfa sem eru að baki hópmálsókninni gegn Björgólfi Thor. Árni og Róbert Wessman, forstjóri Alvogen, hafa átt í löngum deilum við Björgólf sem hefur m.a. stefnt þeim báðum til greiðslu skaðabóta fyrir meintan fjárdrátt.

Þetta kemur fram í frétt Kjarnans en líkt og mbl greindi frá í gær bættist félagið Urriðahæð ehf. í málsóknarfélagið á mánudaginn, daginn fyrir þingfestingu málsins. Urriðahæð hefur fengið fram­selt hluta­fé og skaðabóta­kröf­ur Líf­eyr­is­sjóðs starfs­manna rík­is­ins og hjúkr­un­ar­fræðinga, Gild­is líf­eyr­is­sjóðs, Stafa líf­eyr­is­sjóðs, Fest­ar líf­eyr­is­sjóðs og Líf­eyr­is­sjóðs Vesta­manna­eyja, og fer nú með 61,2 prósent allra hluta í málinu.

Árni Harðarson
Árni Harðarson mbl.is/Rósa Braga

Kjarninn komst yfir tilboð sem félagið hefur verið að gera í hlutabréfin, en þar er boðist til þess að greiða félagsgjald eiganda bréfanna að fullu, og standa straum af öllum kostnaði vegna málsins, gegn því að fá 50 prósent allra innheimtra skaðabóta.

Ef hluthafar hafa ekki áhuga á þessari leið býðst þeim að selja hlutafé sitt og framselja samhliða skaðabótakröfuna fyrir fimm prósent af nafnvirði hlutafjárins. Samkvæmt tilboðinu fær hluthafinn samt sem áður 25 prósent af skaðabótum eftir uppgjör á kostnaði, án þess að leggja út neinn kostnað.

Hlutabréfin eru verðlaus í dag nema bótaskylda Björgólfs verði viðurkennd en fyrir þessi bréf hefur Urriðahæð greitt á milli 25 til 30 milljónir króna á síðustu dögum.

Árni og Róbert störfuðu báðir sem stjórnendur hjá Actavis þegar Björgólfur Thor var forstjóri fyrirtækisins og eru nánir samstarfsmenn í dag. Róbert hætti hjá fyrirtækinu í ágúst 2008 og sagði Björgólfur að hann hefði verið rekinn en Róbert hefur neitað því. Í yfirlýsingu frá Róberti vegna málsins sem Björgólfur höfðaði á hendur honum og Árna sagði hann Björgólfi m.a. að fara í ísfötubað og kæla sig.

Frétt mbl.is: Skaðabótamál Björgólfs tekið fyrir

Róbert Wessman.
Róbert Wessman. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK