Bitcoin: Næsti gjaldmiðill Íslands?

Verið er að grafa eftir bitcoins í gagnaverum á Íslandi.
Verið er að grafa eftir bitcoins í gagnaverum á Íslandi. mbl.is/afp

Netgjaldmiðillinn bitcoin gæti hentað Íslendingum sérlega vel vegna fyrirsjáanleika varðandi verðbólgu en hins vegar er tæknin ennþá ný og gengið alltof óstöðugt til þess að hægt sé að íhuga upptöku. Til stendur að opna íslenska kauphöll fyrir netgjaldmiðla.

Hlynur Þór Björnsson hélt erindi um bitcoin á fundi Skýrslutæknifélags Íslands í dag, þar sem hann fjallaði m.a. hentugleika gjaldmiðilsins fyrir Íslendinga. Hann bendir á að gjaldmiðillinn sé óháður peningaprentun bankanna og geti ekki búið til verðbólgu eða þanið út lánakerfið. Tæknin sé hins vegar aðeins sex ára gömul og gengið mjög óstöðugt. Þá sé bankakerfið ekki búið undir að taka við gjaldmiðlinum. 

Aðspurður hvort bitcoin gæti orðið gjaldmiðill framtíðarinnar svarar hann játandi og segir að spennandi verði að sjá stöðuna eftir um það bil tíu ár. „Það er ekki hægt að taka upp mynt sem er kannski að sveiflast um fimmtíu prósent á einum mánuði, þó við sjáum nú krónuna okkar gera það af og til,“ segir hann glettinn.

Hver bitcoin færsla kostar eina krónu og skiptir fjárhæðin sem fer á milli ekki máli. Ljóst má því telja að fyrirtæki gætu hagnast nokkuð af útbreiðslu gjaldmiðilsins þar sem kreditkortafærslur kosta fyrirtæki yfirleitt um tvö til fimm prósent af kaupverði. Aðspurður segir Hlynur að fáir séu hins vegar farnir að taka við bitcoins en bendir þó t.d. á Dell og Microsoft.

Lagaleg staðfesting

Eitt bitcoin kostar í dag um 300 dollara og hafa gengissveiflurnar verið miklar á síðustu árum. Hvert bitcoin kostaði nokkur sent fyrir fjórum árum en fyrir tveimur árum fór gengið upp í eitt þúsund dollara. Hann segir gengið keyrt áfram af spákaupmennsku um þessar mundir auk þess sem kaupendur eru tiltölulega fáir. Ef einhver losar sig t.d. við mikið magn á skömmum tíma getur verið erfitt að finna kaupendur með tilheyrandi áhrifum á gengið.

Nýjasta stóra sveiflan var í síðasta mánuði þegar gengið fór snögglega upp í fimm hundruð dollara og síðan aftur niður. Hlynur segir engan vita nákvæmlega hvað olli en bendir á að menn hafi verið með vangaveltur um stórfelld kaup Kínverja áður en gjaldeyrishöftin voru hert á dögunum. Einhverjir hafi væntanlega séð þetta sem leið til þess að koma verðmætum sínum úr landi og umbreyta síðar í dollara. 

Í síðasta mánuði féll einnig dómur hjá Evrópudómstólnum sem staðfesti í rauninni gildi bitcoin sem raunverulegs gjaldmiðils þar sem dómurinn taldi að ekki þyrfti að greiða virðisaukaskatt af honum. Hlynur segir staðfestingu regluverksins á gjaldmiðlinum eflaust hafa haft nokkuð að segja.

Í hvert skipti sem gengið rýkur hins vegar upp með þessum hætti eru einhverjir sem vilja selja aftur og Hlynur bendir á að vegna þessa teljist gjaldmiðillinn ekki raunverulegur valkostur í dag. „Í dag er áhættan í  þessu sennilega meiri en á hlutabréfamarkaðnum,“ segir Hlynur

Endanlegt upplag komið 2140

Þegar vísað er til þess að bitcoin skapi fyrirsjáanleika með verðbólgu er átt við að gjaldmiðillinn hefur endanlegt upplag og er peningaprentun því algjörlega takmörkuð. Í dag eru til um 14 milljónir bitcoins en í lokin verða þær 21 milljón talsins.

Þeir sem sinna greiðslumiðlunarþjónustunni fá í dag borgaða 25 bitcoins á tíu mínútna fresti, en á fjögurra ára fresti mun þessi upphæð helmingast, þar til heildarupplagið er komið upp í 21 milljón. Talið er að það verði í kringum árið 2140. „Menn vita hversu mikið verður búið til á næstu vikum og mánuðum og þetta er því algjörlega fyrirsjáanlegt,“ segir Hlynur og bendir á að líkja megi myntinni við gull að þessu leyti. „Við vitum að ákveðið magn er til.“

Ef hagkerfið vex ætti verðgildi myntarinnar einnig að hækka og þannig eiga kost á því að þjónusta stærra hagkerfi.

Svokallaðar námuvinnslur sjá um að grafa eftir bitcoins. Þetta er ört vaxandi þáttur í gagnaversiðnaði nú á dögum og eru t.d. nokkur fyrirtæki sem stunda þetta í gagnaveri upp­lýs­inga­tækni­fé­lags­ins Advania á Fitj­um í Reykja­nes­bæ. „Gröfturinn“ felur í sér úrlausn á flóknum stærðfræðijöfnum. Tölvan sem verður fyrst til þess að leysa þrautina leysir til sín verðlaunaféð, 25 bitcoins, og sendir um leið skrá yfir allar millifærslur til annarra tölva sem einnig eru í námugreftrinum. Þannig eru allar tölvur með sömu millifærsluskrá á hverjum tíma og tryggir það öryggi í viðskiptum.

Kauphöll fyrir netgjaldmiðla

Til stendur að opna kauphöll fyrir netgjaldmiðla á Íslandi. Hlynur er einn stofnenda og segir þetta vera fyrsta skrefið til þess að koma Íslendingum í þennan heim. Opnað hefur verið fyrir skráningar í beta prófanir á vefsíðunni ISX og er ætlunin að byrja með prófanir á netgjaldmiðlinum Auroracoins sem allir Íslendingar fengu gefins fyrir ári síðan. Þegar gjaldeyrishöftum verður aflétt er stefnan að bjóða upp á bitcoin á markaðnum. 

Auroracoin byggir á sömu tækni og bitcoin en er þó önnur mynt. Sama tækni er þar á bak við en ýmis smáatriði eru öðruvísi. Upplagið er einnig takmarkað og myntin hefur sömu eiginleika gagnvart verðbólgu. 

Hlynur Þór Björnsson
Hlynur Þór Björnsson
Upplagið af bitcoins fer ekki yfir 21 milljón.
Upplagið af bitcoins fer ekki yfir 21 milljón.
Allir Íslendingar fengu Auroracoins gefins. Bráðlega verður opnað fyrir prófanir ...
Allir Íslendingar fengu Auroracoins gefins. Bráðlega verður opnað fyrir prófanir á myntinni í nýrri kauphöll.
mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir