Ráðuneytið gleymdi bjórnum

Það er möguleiki að handvömm í ráðuneytinu eigi eftir að …
Það er möguleiki að handvömm í ráðuneytinu eigi eftir að hækka bjórverð tímabundið. Það er þó enn alveg óvíst. AFP

Fyrir áramót var svokallaður bandormur samþykktur á Alþingi og tók hann gildi um áramót. Er um að ræða breytingar á ýmsum forsendum fjárlagafrumvarps. Meðal annars átti að lækka virðisaukaskatt á áfengi úr efra þrepi niður í neðra þrepið á móti hækkun á áfengisgjaldi.

Í bandorminum er upptalning á tollaflokkum sem skattalækkunin á við, meðal annars á léttvínum, sterku áfengi og fleiru. Aftur á móti gleymdist að telja upp þá tollaflokka sem bjór tilheyrir. Enn liggur ekki fyrir hvort þetta muni hafa áhrif á verð bjórs, en líklegt er að leiðrétting á þessu verði samþykkt strax og þing kemur saman að nýju eftir tvær vikur.

Gleymdist að setja hann í bandorminn

Benedikt S. Benediktsson, sérfræðingur á skrifstofu skattamála hjá fjármálaráðuneytinu, staðfestir í samtali við mbl.is að gleymst hafi að setja inn nokkur tollanúmer sem tengis bjórnum. Segir hann að í skýringum með lögunum komi þó vilji löggjafans nokkuð skýrt fram. Þannig sé hægt að túlka ákvæði laganna þannig að það hafi verið vilji löggjafans að lækka allt áfengi úr efra þrepinu niður í hið neðra.

Almennt geta framkvæmdaaðilar ríkisins fylgt strangri túlkun laga eða að þeir skýri ákvæðið til samræmis við vilja löggjafans. Segir Benedikt að það sé í höndum ríkisskattstjóra og tollstjóra hvernig breytingin verði túlkuð. Hann tekur þó fram að unnið sé að skoðun málsins hjá ráðuneytinu og að hann eigi von á að ráðuneytið muni beita sér fyrir að breyting verði gerð um leið og þing komi saman á ný. „Ég geri ekki ráð fyrir að þetta hafi áhrif,“ segir Benedikt.

Tollstjóri og skattstjóri skoða málið

Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri, segir í samtali við mbl.is að staðan núna gefi ekki tilefni til sérstakra aðgerða. Segir hann að þetta verði væntanlega lagað á næstunni. Snorri Olsen, tollstjóri, segir málið nýtilkomið og að það sé enn í skoðun hjá embættinu. „Það er ekki komin niðurstaða enn þá,“ segir hann.

Gæti hækkað verð

Virðisaukaskattsþrepin eru 24% og 11%. Ef skatta- og tollayfirvöld munu áfram horfa til þess að bjór verði í 24% þrepinu á sama tíma og áfengisgjaldið hækkar má leiða líkur að því að verð á bjór geti hækkað sem því nemi, það er ef framleiðendur og innflytjendur ætla ekki sjálfir að taka á sig mögulega verðhækkun. Alþingi kemur saman aftur 19. janúar og líklegt verður að þykja að fljótlega eftir það verði breyting á þessum lögum lögð fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK