Nýjasta fyrirsætan 81 árs

Ásdís Karlsdóttir, 81 árs Akureyringur og nýjasta módel 66°Norður
Ásdís Karlsdóttir, 81 árs Akureyringur og nýjasta módel 66°Norður Ljósmynd/ 66°Norður

66°Norður auglýsti nokkur störf síðustu helgi. Ein umsóknin skar sig heldur betur úr og vakti athygli á Facebook og í kjölfarið fjölgaði umsækjendum mjög.

Það var Ásdís Karlsdóttir, 81 árs Akureyringur, sem spurði 66°Norður á Facebook hvort fyrirtækið vantaði ekki fyrirsætu og birti að því tilefni myndir sem sýndu fram á meðfædda módelhæfileika hennar.

Uppátækið fékk strax rífandi viðbrögð og innan við viku síðar hafði hún setið fyrir í auglýsingu hjá 66°Norður. „Þetta er hreinasta ævintýri, sannarlega ævintýri fyrir kellingu á mínum aldri. Mér finnst þetta bara gaman, þetta er skemmtileg tilbreyting,“ er haft eftir Ásdísi í tilkynningu frá fyrirtækinu. 

En hvernig kom það til að 81 ára gömul amma, sem hafði aldrei setið fyrir, sótti um starf fyrirsætu?

„Ég fór í leik á netinu undir yfirskriftinni: „Hvaða starf myndi henta þér best?“ og niðurstaðan hjá mér var módel. Næsta mynd fyrir neðan var svo auglýsing frá 66°Norður fyrir mörg skemmtileg störf. Ég fór ekkert inn á vefinn hjá þeim, ég bara lækaði, svo ég sletti nú, og kommentaði reyndar líka: „Vantar ykkur ekki módel? Ég er áttatíu ára.“ Svo skellti ég inn einum fimm svona sprell myndum af mér," segir Ásdís hæstánægð með nýja starfið.

Fréttin og facebook færsla Ásdísar fengu strax mikil og jákvæð viðbrögð, ekki síst hjá Akureyringum sem þekkja til hennar, en Ásdís var íþróttakennari við Verkmenntaskóla Akureyrar í 20 ár.

„Ég er kannski líka þekkt fyrir að vera dálítið öðruvísi. Ég kann ekki á bíl og keypti mér nýlega barnavagn undir vörurnar þegar ég fer út í búð, til að vera ekki alltaf að biðja um skutl,“ er einnig haft eftir Ásdísi. 

Ásdís Karlsdóttir var íþróttakennari í 20 ár.
Ásdís Karlsdóttir var íþróttakennari í 20 ár. Ljósmynd/66°Norður
mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir