Skipt um forstjóra og mikill niðurskurður

Sam Walsh hættir sem forstjóri í júlí.
Sam Walsh hættir sem forstjóri í júlí. AFp

Forstjóri Rio Tinto, Sam Walsh, mun láta af störfum í júlí og Frakkinn Jean-Sebastien Jacques tekur við starfinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá námafyrirtækinu sem meðal annars á og rekur álverið í Straumsvík.

Walsh hefur verið forstjóri Rio Tinto í rúm þrjú ár og á þeim tíma hefur niðurskurðarhnífurinn verið hátt á lofti vegna verðlækkana á hrávörumarkaði. Hann mun einnig fara úr stjórn fyrirtækisins á sama tíma og hann lætur af starfi forstjóra.

Jacques, sem nú stýrir kopar og kolastarfsemi samsteypunnar á skrifstofu fyrirtækisins í London, verður aðstoðarforstjóri þangað til hann tekur við starfi forstjóra og eins kemur hann inn í stjórn félagsins strax.

Rio Tinto tapaði 866 milljónum Bandaríkjadala, 110 milljörðum króna, á síðasta ári og er tapið einkum rakið við verðlækkunar á hrávörumarkaði. Fyrirtækið hefur hert sultarólina í baráttunni við verðfallið og mun herða hana enn frekar. Stefnt er að því að draga úr rekstrarkostnaði sem nemur einum milljarði Bandaríkjadala, 127 milljörðum króna, í ár og sömu fjárhæð á næsta ári. Jafnframt verður dregið verulega úr fjárfestingum.

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir