Með 25% hryggskurðaðgerða í Svíþjóð

Björn Zoëga forstjóri GHP Stockholms Spine Center sér mikla möguleika ...
Björn Zoëga forstjóri GHP Stockholms Spine Center sér mikla möguleika á samstarfi milli eininganna. mbl.is/Ómar

Bæklunarklíníkin GHP Stockholms Spine Center, sem er undir stjórn Björns Zoëga, bæklunarlæknis og fyrrverandi forstjóra Landspítalans, hefur nú tekið yfir rekstur bæklunarklíníkurinnar GHP Spine Center Göteborg, en báðar eru sérhæfðar í hryggskurðlækningum.

Björn hefur verið forstjóri GHP Stockholms Spine Center, sem hefur verið stærsta einingin í hryggskurðlækningum á Norðurlöndunum, nú í nokkur ár. Með kaupunum á GHP Spine Center Göteborg stækkar fyrirtækið um helming og ábyrgðarsvið Björns þar með, en hann verður forstjóri beggja klíníkanna.

„Þetta leggst bara vel í mig, ég sé mikla möguleika í samstarfi á milli eininga sem eru að vinna mjög líka vinnu,“ segir Björn í samtali við mbl.is og bætir við að töluverð samlegðaráhrif verði þar af.

„Eftir þessar breytingar þá sjáum við um um 25% af hryggskurðlækningum í allri Svíþjóð og þá eru háskólasjúkrahúsin talin með,“ segir Björn.

„Þetta verður þó smá þvælingur á mér þar sem ég er enn með fjölskylduna á Íslandi og er því mikið á ferðinni hingað heim.“ Björn hefur auk þess haldið stöðuhlutfalli á Landspítalanum þar sem hann hefur komið að hryggaðgerðum ca. 2 daga í mánuði. Hann segir enga breytingu verða þar á í bili.  „Við munum bara sjá hvernig það leysist.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir