Aðeins þeir hæfu verði eigendur

Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins.
Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins. mbl.is/Styrmir Kári

Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, segir þjóðfélagsumræðuna eftir söluna á tæplega þriðjungi hlutafjár Arion banka hafa verið óvenjutilfinningaríka. Ljóst sé að Íslendingum sé umhugað um að stjórnarhættir sem viðgengust fyrir fjármálahrunið endurtaki sig ekki. Fyrir Fjármálaeftirlitinu liggi nú það verkefni að meta hæfi þeirra til að eiga virkan eignarhlut.

Þetta kom fram í ávarpi Unnar á ársfundi FME í dag. Hún benti á að slitabú Kaupþings og Glitnis hafi á sínum tíma talin óhæf til að vera virkir eigendur en hafi samt sem áður átt bankana að mestu leyti samkvæmt samkomulagi um uppgjör á milli stjórnvalda og kröfuhafa. Málið hafi verið leyst samkvæmt þágildandi lögum með stofnun eignarhaldsfélaga sem báru ábyrgð á að bönkunum væri stjórnað í armslengdarfjarlægð frá eigendum þeirra.

Hún segir brýnt að vinda ofan af þessu fyrirkomulagi og að aðeins þeir sem teljast hæfir samkvæmt lögum og mati Fjármálaeftirlitsins verði virkir eigendur bankans.

Þáttur í því verði að meta hæfi Kaupþings og horfa í gegnum beint og óbeint eignarhald fjárfestingarsjóðanna sem nýverið keyptu beinan eignarhlut í Arion banka.

Íslandsbanki komst hins vegar í hendur ríkissjóðs sem greiðsla á stöðugleikaframlagi slitabús Glitnis. Ríkið er talið hæfur virkur eigandi að banka og eru því ekki lengur í gildi skilyrði um óhæði eigenda að rekstri bankans.

Frá ársfundi Fjármálaeftirlitsins í dag.
Frá ársfundi Fjármálaeftirlitsins í dag.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir