Aðeins 43% þiggja húsaleigubætur

92,7% töldu það óhagsætt að leigja miðað við 55,4% árið …
92,7% töldu það óhagsætt að leigja miðað við 55,4% árið 2011. mbl.is/Árni Sæberg

17% þjóðarinnar eru á leigumarkaði en 70% í eigin húsnæði. Leigumarkaðurinn hefur stækkað síðustu ár en árið 2008 voru 12% þjóðarinnar á leigumarkaði. Þetta er meðal þess sem fram kemur í niðurstöðum viðhorfskönnunar Íbúðalánasjóðs meðal almennings um stöðu húsnæðismála sem var kynnt í húsnæði Íbúðalánasjóðs í dag.

29,5% leigjenda eru ekki með þinglýstan leigusamning og einungis 43,3% leigjenda þiggja húsnæðisbætur. „Þetta þýðir að opinber gögn sýna okkur innsýn í aðeins 2/3 leigumarkaðarins,“ sagði Una Jónsdóttir, hagfræðingur Íbúðalánasjóðs.

Hún sagði jafnframt ljóst út frá niðurstöðum könnunarinnar að leigjendur væru í mjög viðkvæmri stöðu og byggju við afgerandi minna húsnæðisöryggi en þeir sem byggju í eigin fasteign. „Stór hluti leigjenda sést ekki í opinberum tölum og hagsmuna hópsins er ekki nægilega vel gætt.

Una Jónsdóttir hagfræðingur hjá Íbúðalánasjóði
Una Jónsdóttir hagfræðingur hjá Íbúðalánasjóði mbl.is/Eggert Jóhannesson

92,7% telja það óhagstætt að leigja

Una benti á að það þyrfti ekki endilega að vera samansem merki milli þess að þiggja húsleigubætur og vera með þinglýstan leigusamning og bætti við að samkvæmt nýjum lögum um húsnæðisbætur gætu t.d. námsmenn á stúdentagörðum fengið bætur án þess að þinglýsa.

Una sagði það vissulega skjóta skökku við að aðeins rúm 43% leigjenda notfærðu sér húsaleigubætur. Samkvæmt niðurstöðum könnunar Íbúðalánasjóðs þiggja 73% leigjenda með undir 400.000 í heimilistekjur húsaleigubætur en aðeins 44% sem eru með 400 til 549 þúsund. „Þetta getur verið vísbending um óskráða leigu,“ sagði Una.

Una sagði nokkuð ljóst að vaxandi óánægju gætti meðal leigjenda. Í könnuninni var fólk spurt óháð núverandi búsetu hversu mikið eða lítið það teldi að framboð væri af íbúðarhúsnæði til leigu á Íslandi sem hentaði því og fjölskyldu þess. 85,2% töldu framboðið lítið en í svari við sömu spurningu árið 2011 töldu 55,7% framboðið lítið.

Þá töldu 92,7% það óhagsætt að leigja en 55,4% árið 2011. Það ár töldu 19,3% það hagstætt og 25,3% svöruðu „hvorki né“. Í ár hefur heldur betur orðið breyting á, 3,1% segir hvorki né og 4,2% að það sé hagstætt að vera á leigumarkaði.  „Þessi niðurstaða er alveg augljóst merki um að hagur leigjenda sé að versna,“ sagði Una.

Leigjendur geta síður sparað

Þegar litið er til sparnaðar fólks kom í ljós að leigjendur geti síður safnað en þeir sem búa í eigin húsnæði. 41% þeirra sem voru að leigja sögðust geta safnað talsverðu eða svolitlu sparifé á meðan þeir sem bjuggu í eigin húsnæði og gátu sparað talsvert eða svolítið voru 66%.

Fólk var spurt ef það væri að skipta um húsnæði í dag, hversu líklegt það væri að það myndi leigja sér húsnæði. 74,9% sögðu það ólíklegt en 18,5% líklegt. Þeir voru spurðir af hverju þeir hygðust vera á leigumarkaði og voru tvö svör áberandi að sögn Unu, þ.e. „Hef ekki efni á því að kaupa“ sem 87,5% svarenda sögðu og „Kemst ekki í gegnum greiðslumat“ sem 19% aðspurðra sögðu. Í könnunum 2011 og 2013 voru aðeins fjölbreyttari ástæður nefndar, m.a. óvissa á húsnæðismarkaði, óhagkvæmt að kaupa, ódýrara að leigja og minni skuldbinding.

Þegar litið er til sparnaðar fólks kom í ljós að …
Þegar litið er til sparnaðar fólks kom í ljós að leigjendur geti síður safnað en þeir sem búa í eigin húsnæði. 41% þeirra sem voru að leigja sögðust geta safnað talsverðu eða svolitlu sparifé á meðan þeir sem bjuggu í eigin húsnæði og gátu sparað talsvert eða svolítið voru 66%. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Þurfa að hafa val milli kaupa og leigu

Þá töldu einungis 45% leigjenda sig búa við húsnæðisöryggi en 69% þeirra sem búa í foreldrahúsum og 91% þeirra sem búa í eigin húsnæði.

Sagði Una ljós að húsnæðisöryggi kæmi ekki fyrr en fólk hefði tök á því að eignast og að það gæti leitt til þess að fólk færi í óhóflega skuldsetningu þar sem eftirspurnin væri mun meiri en framboðið af fasteignum. Sagði Una það jafnframt nauðsynlegt  að reyna brúa bilið og að fólk hefði val milli kaupa og leigu. „Eins og staðan er í dag vilja nánast allir kaupa því leigumarkaðurinn er ótraustur,“ sagði Una.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK