Full ástæða til að skoða hámarkshlutfall

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, fagnar því að kostir og gallar aðskilnaðar viðskipta- og fjárfestingabankastarfsemi séu skoðaðir ofan í kjölinn í nýrri skýrslu starfshóp fjármálaráðherra sem birt var á þriðjudaginn. Hún segir fulla ástæðu til þess að skoða þá leið að setja hámarkshlutfall á fjárfestingabankastarfsemi innan alhliða banka en það er ein þeirra þriggja leiða sem lögð var til af hópnum.

Fundað var um skýrsluna á fundi efnahags- og viðskiptanefndar í dag.

„Ég hef talað fyrir algjörum aðskilnaði viðskipta- og fjárfestingabankastarfsemi en ég held nú að það sé full ástæða til þess að skoða þá leið að setja hámarkshlutfall,“ segir Katrín í samtali við mbl.is.

Hún segist jafnframt fagna því að til standi að skipa nefnd sérfræðinga til þess að vinna frekari tillögur í samráði við stjórn og stjórnarandstöðu.

Þótt vanta stefnumótun

„Ég tel að við séum búin að innleiða miklar breytingar á íslensku fjármálakerfi í gegnum þátttöku okkar í EES. Samt hefur mér þótt vanta almennilega stefnumótun hér heima og ég tel að við höfum mikil tækifæri til þess nú þegar jafn stór hluti fjármálakerfisins er í fangi ríkisins og raun ber vitni,“ segir Katrín. „Ég tel að hluti af þeim spurningum sem þarf að svara varði einmitt viðskipta- og fjárfestingabankastarfsemi.“

Eins og komið hefur fram leggur hópur ráðherra fram þrjár mögulegar leiðir sem gætu komið til greina í sambandi viðskipta- og fjárfestingabankastarfsemi. Ein leiðin sé að starfsumhverfi fjármálafyrirtækja byggist á þeim kerfisumbótum sem nú þegar hafa átt sér stað eftir fjármálahrunið eða eru nú þegar í þróun, kerfisbreytingu sem felur í sér að viðskiptabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi verði aðskilin og að fjárfestingabankastarfsemi verði áfram heimiluð innan alhliða banka að því gefnu að hún verði innan skilgreindra hlutfalla.

„Sú leið myndi ná þeim markmiðum sem við viljum ná út frá fyrstu sýn en með þeim fyrirvara að við eigum eftir að fara yfir þetta betur,“ segir Katrín.

mbl.is
Svæði

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir