Miklir hagsmunir íslensk atvinnulífs í húfi

Samningaviðræður milli Bretlands og ESB eru hafnar. Miklir hagsmunir geta ...
Samningaviðræður milli Bretlands og ESB eru hafnar. Miklir hagsmunir geta verið í húfi fyrir íslenskt atvinnulíf. AFP

Bretland er einn mikilvægasti útflutningsmarkaður Íslendinga, með um 12% af heildarútflutningi, og þriðja stærsta viðskiptaland Íslands. Því eru miklir hagsmunir í húfi fyrir íslenskt atvinnulíf vegna Brexit. Ísland gæti þurft að gera nýjan samning við Breta um samskipti ríkjanna til að tryggja gagnkvæma hagsmuni. Þetta kemur fram í greiningu Samtaka atvinnulífsins á hagsmunum Íslands vegna útgöngu Breta úr Evrópusambandinu.

Íslendingar fluttu út vörur til Bretlands árið 2015 fyrir 73 milljarða króna og til landsins fyrir 35 milljarða króna. Þá var umfang þjónustuviðskipta árið 2015 einnig mikið en útflutt þjónusta nam 66 milljörðum króna þetta ár sem var um 11% af heildar þjónustuútflutningi. Innflutt þjónusta var jafnframt um 66 milljarðar króna eða um 18% af heildarinnflutningi. Ísland er ekki jafnháð Bretlandi hvað varðar innflutning en háðara hvað varðar í útflutning þar sem stærstu vöruflokkarnir eru fisk- og álafurðir.

Formlegar viðræður milli Breta og Evrópusambandsins hófust fyrir rúmri viku en áætlanir gera ráð fyrir að Bretland gangi úr Evrópusambandinu innan tveggja ára.

Fram kemur í samantekt SA að óljóst sé hvort samningur Bretlands við ESB um samband þeirra til framtíðar muni jafnframt ná til Evrópska efnahagssvæðisins, EES, en í gegnum EES er Ísland aðili að innri markaði ESB. Ef viðræður Bretlands og ESB ná ekki til EES þarf ísland að semja um áframhaldandi markaðsaðgang við Breta.

Greining og samantekt SA út frá íslenskum hagsmunum vegna Brexit í heild sinni.

mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir