Stefna á að opna H&M í september

Miklar framkvæmdir standa nú yfir í Kringlunni þar sem H&M ...
Miklar framkvæmdir standa nú yfir í Kringlunni þar sem H&M á að opna í næsta mánuði. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Gert er ráð fyrir því að verslun H&M í Kringlunni verði opnuð seinni hluta septembermánaðar. Verslunin verður í 2.600 fermetra rými á annarri hæð Kringlunnar þar sem Hagkaup var áður. Í samtali við mbl.is segir Sigurjón Örn Þórsson, framkvæmdastjóri Kringlunnar, að framkvæmdir við rýmið hafi gengið vel en Kringlan afhenti H&M það í byrjun júlí.

Það er mikið í gangi í Kringlunni sem fagnar 30 ára afmæli um þessar mundir. Leikfangaverslunin ToysRus verður opnuð þar í næsta mánuði og verður hún fjórða ToysRus-verslunin hér á landi. Sigurjón segir að verslunin verði opnuð 21. september í rýminu sem áður hýsti Next. Rýmið er eitt það stærsta í Kringlunni eða um 2.000 fermetrar á tveimur hæðum.

ToysRus verður opnuð í Kringlunni í september, þar sem Next ...
ToysRus verður opnuð í Kringlunni í september, þar sem Next var áður. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Þá verður Nespresso-verslun opnuð 1. desember í hluta rýmisins sem hýsir nú Topshop en þeirri verslun verður lokað í lok mánaðar og á næstu vikum mun kökuverslunin 17 sortir verða opnuð í rými á fyrstu hæð Kringlunnar við Útilíf. Síðan hefur Hagkaup á neðri hæð Kringlunnar verið lokað tímabundið á meðan uppsetning á nýrri verslun fer fram. Hún verður opnuð í október en mark­miðið er að breyta út­lit­inu og bæta nýt­ing­una með sama móti og í Smáralind. 

Í samtali við mbl.is fyrr í mánuðinum sagði Gunnar Ingi Sigurðsson, framkvæmdastjóri Hagkaupa, að ákveðið hefði verið að ráðast í fram­kvæmd­ir þegar tæki­færi gafst en verslunin var síðast endurnýjuð að hluta árið 1999.

mbl.is/Hanna Andrésdóttir
mbl.is

Gagnaveitur

Erlendar viðskiptafréttir